laugardagur, 22. desember 2012

Jólin, jólin allstaðar...

...með jólagleði og gjafirnar...
Já það er nú bara þannig að Davíð er nú stressaður yfir að allar gjafirnar eru komnar undir tréð, hann hefur svo miklar áhyggjur af að eitthvað vanti.... nú ef svo er þá fattar það enginn það er svo mikið af pökkum undir trénu, Daða Steini finnst alveg nóg um.

Allt gengur þetta sinn vanagang, ég er búin með aðalskúringuna og líka þá næstu á eftir svo það verður bara létt yfirferð á aðfangadag. Jólatréð var gert klárt í morgun á meðan ég var á hlaupum og Ísak Máni svaf. Svo fór öll hersingin í Fjarðarkaup að versla jólamatinn, en það virðist vera að festast í sessi að skella sér þangað að kaupa hamborgarahrygginn, enda bragðast hann ákaflega vel.

Ég er tiltölulega róleg yfir þessu öllu og meira að segja bara nokkuð róleg yfir fermingunni hans Ísaks Mána sem skellur á strax eftir áramót, enda allt undir kontról.

Ég hef verið nokkuð dugleg við að skokka undanfarið þó ég segi sjálf frá, enda er það allt annað líf að vera í svona skokkhóp heldur en að vera að böðlast þetta einn, maður þarf bara að mæta og hlaupa, en ekkert að hugsa fyrirfram, manni er bara sagt hvað maður á að hlaupa. Frábær hópur og skemmtilegur félagsskapur þarna hjá ÍR skokk.

Skokk:
miðvikudagur 19. des. Jólaljósahlaup, ca 6 km
fimmtudagur 20. des. 7 km á 40 mín
laugardagur 22. des. 11,25km á ca. 70 min.
þriðjudagur 25.des. 10 km í Elliðaárdalnum
fimmtudagur 27. des. 6,9 km.
mánudagur 31.des. 10 km á 54:45
fimmtudagur 3. jan 8.km
laugardagur 5.jan 14.5 km á 1:35klst

sunnudagur, 11. nóvember 2012

Lífið er körfubolti

Þessa dagana er lífið körfubolti. Síðustu þrjár helgar hafa snúist um körfubolta. Fyrst Ísak Máni að keppa með 9.flokk á Hvammstanga og Davíð fararstjóri með. Svo Logi Snær að keppa í Grafarvogi og Davíð liðsstjóri með liðinu hans Loga Snæs.  Svo var Ísak Máni að keppa í Borgarnesi með 8. flokk núna um helgina og fór Davíð fyrri daginn og ég seinni daginn. Ekki gekk nú nógu vel þessa helgina því allir leikir töpuðust og þeir féllu niður í B riðil, en þá er bara að koma sér upp í A riðil aftur næst - þar eiga þeir heima!
Ég er að rembast við að skokka á fullu og gengur það bara nokkuð vel nema á laugardögum því þá er alltaf einhver körfubolti að þvælast fyrir mér. Ef það er ekki einhver að keppa þá er leikur í Seljaskóla og Ísak Máni þarf að vinna þar.
Annars er bara alltaf meira en nóg að gera á öllum vígstöðvum.

Ræktin:
Þriðjudagur 6. nóv. 7.5 km skógarleiðangur í Elliðaárdalnum (35-40 mín ca)
Fimmtudagur 8. nóv. 10 km Poweradehlaup á 55:56 mín. Personal best - vííí
Mánudagur 12. nóv. 7,5-8 km kraftganga.
þriðjudagur 13. nóv. 8,9 km á 55 mín.
Fimmtudagur 15.nóv. 9.1km á 55 mín.
Laugardagur 17. nóv. 12,5 km á 80 mín.
þriðjudagur 20. nóv. 7,5 km (ca) með geðveiku brekku og tröppuhlaupi, á um 40 mín.
fimmtudagur 22. nóv. - Skautaferð
laugardagur 24.nóv. - veik
þriðjudagur 27. nóv. - veik
Fimmtudagur 29. nóv. 9,3 kma á ca. 56 mín.
þriðjudagur 4.des. 7,5 km.
fimmtudagur 6.des. 8 km á 47 mín.
laugardagur 8. des. 12.5 km á ca 80 mín
þriðjudagur 11. des 6,9 km
fimmtudagur 13.des 10 km Powerade hlaup á 55:30  mín. Personal best aftur!
Laugardagur 15.des 12,5 km á ca 76 mín

sunnudagur, 28. október 2012

Grasekkjulíf!

Já þetta er nú búið að vera meira grasekkjulífið síðustu vikurnar. Daði Steinn fór í hálskirtlatöku og var heima í ellefu daga eftir það, var þó orðinn nokkuð góður eftir svona átta daga - ég var hins vegar búin að gefa honum frí í leikskólanum og eins voru hinir strákarnir og ég í vetrarfríi. Davíð fór til Parísar eldsnemma á sunnudagsmorgun og skilaði sér heim seint á miðvikudag og auðvitað tókst einum að fá ælupest á meðan mér til lítillar skemmtunar. Ekki stoppaði Davíð lengi heima því í gær var hann farinn á Hvammstanga með Ísak og hans félaga í körfunni. Þeir gerðu sér lítið fyrir og unnu riðilinn sinn í 9.flokki (eru s.s. að spila bæði með 8. og 9. flokk). Þeir eru nú samt hálf sloj hérna í sófanum að glápa á fótbolta. Nú er spurning hvort næstu dagar verði venjulegir og rútínan eins og hún á að vera.
Ég byrjaði að hlaupa með skokkhóp ÍR á fimmtudag og líst bara vel á þetta, fullt af skemmtilegu fólki og stemmningin góð - búin að segja upp kortinu í Reebokfitness og ætla að kýla á skokkið í vetur.

Ræktin:
fimmtudagur 25.okt. 5,8 km með laaaaaangri brekku í kópavoginum.
laugardagur 27. okt. 5 km Seljahringur
þriðjudagur 30. okt. 7 km. á 35 mín.
fimmtudagur 1. nóv. 9,1 km á 52 mín.
sunnudagur 4. nóv. 11 km á rólegu tempói með Ingu systur!

laugardagur, 13. október 2012

Nóg að gera...

Já alltaf nóg að gera á þessum bæ. Daði Steinn var í hálskirtlatöku í gær. Davíð sá um þetta í þetta sinn, já á þessu heimili er jöfn verkaskipting ég sá um nefkirtlana og Davíð hálskirtlana. Allt gekk þetta eins og það átti að gera - Daði vildi ekki fara í spítalafötin og orgaði heil ósköp (eins og síðast) áður en hann var svo svæfður.  Hann var nú frekar sjúskaður þegar ég kom heim um hálf fjögur en varð ferskari með hverri klukkustund og fannst honum t.d. ómögulegt að geta ekki fengið einhvern vin sinn til að leika við sig. Í dag var svo ekki annað hægt en að leyfa honum að gera eitthvað og því skelltum við okkur í bíó með Heklu Björk og Ingu og sáum (aftur) Madagaskar 3. Hekla Björk kom svo og lék við Daða á meðan Inga skellti sér í búðir - held að þetta hafi bjargað geðheilsu okkar mæðgina alveg. Veit ekki hvernig við verðum orðin eftir viku :-/ Logi Snær var hjá Óðni vini sínum og Ísak Máni var að keppa í körfu í dag og svo aftur á morgun og Davíð fylgdi með.
Það er brjálað að gera í vinnunni hjá okkur báðum, Davíð að klára eitthvað dæmi áður en hann fer í vinnuferð til útlanda bráðum og ég að reyna að vinna mig í gegnum undirbúninginn sem fylgir Byrjendalæsinu (ný nálgun í lestrarkennslu) sem við vorum að byrja á í Breiðholtsskóla. En allt hefst þetta með góðri skipulagningu. Það verður svo aldeilis gott að fá langa helgi næst því þá er vetrarfrí í skólanum. Ég hef verið eitthvað misgóð í kroppnum undanfarið, sennilega eitthvað uppsafnað eftir smalamennskur, berjatínslu, kartöfluupptöku o. fl. af þeim sökum hefur ræktin eitthvað setið á hakanum og 2 nuddtímar teknir í staðinn - en allt er þetta að koma til baka og hlaupin komin af stað.

Ræktin:
11. okt. 1. Powerade vetrarhlaupið 10km. á 57:30 - hrikalega sátt:-)
13. okt. 5 km. á 29 mín. (Seljahringurinn)
17. okt 5,8 km á 33 mín. í Elliðaárdalnum - neðri hringur.
20. okt 10 km á 63 mín í hálku og kulda í Elliðaárdalnum

miðvikudagur, 26. september 2012

Lífið er dásamlegt....

Jebb, alveg öfugt við síðast. Nú er maður búinn að sleppa sér á fjöllum á eftir rolluskjátum. Fór s.s. síðustu helgi í Baulumýri og skildi alla kallana mína eftir heima, aðalmarkmiðið var að fara að smala og það tókst. Fór á Hamraendafjallið á laugardeginum og svo á Staðarsveitarfjallið á sunnudaginn og gekk þar langleiðina upp að Helgrindum áður en maður smalaði síðan vestur fjallið. Dásamlegt veður og flottur félagsskapur fyrir utan nokkrar óþekkar rollur auðvitað. Kroppurinn var góður og skilaði mér heim með engar harðsperrur - annað en hjá sumum - nefni engin nöfn hér! Svo er bara að sjá hvort maður haldi áfram að smala næstu helgar.

Ræktin:
laugardagur 22. sept. 5 klst. smalamennska
sunnudagur 23. sept. 7 klst. smalamennska
mánudagur 24. sept. 1,5 klst kraftganga
miðvikudagur 26. sept. 5,5 km og 3x brekkusprettir á 46 mín. (með Ísaki)
Laugardagur 29. sept. c.a 12 tíma smalamennska á fjöllum.
sunnudagur 30. sept. c.a. 5 tíma smalamennska
mánudagur 1. okt. 1,5 klst. kraftganga
miðvikudagur 3. okt. 5km á 30 mín. + 2x brekkusprettir (með Ísaki)

fimmtudagur, 20. september 2012

Eymd og volæði!

Það er ekki mikið búið að heyrast frá manni undanfarið - eða öllu heldur sjást eftir mig hér á blogginu. Hef bara ekki nennt að skrifa neitt. Er búin að vera hálfónýt í kroppnum síðustu tvær vikurnar eða svo. Er mjög stíf í öllum vöðvum hægra megin - líklega eftir að taka upp kartöflur:-/
Hef þess vegna ekki verið að stunda líkamsræktina mína, sem er frekar fúlt, því í andlega erfiðu starfi er nauðsynlegt að fá líkamlega útrás og ekki getur maður fengið líkamlega útrás á nemendum sínum því þá væri maður ekki enn í þessu andlega erfiða starfi :-) Annars gengur vinnan nú bara fínt, bara mikið að gera enda er maður kominn með allskonar titla - formaður og leiðtogi t.d.
Annars gengur lífið bara sinn vanagang hérna á heimilinu, Ísak Máni er á fullu í félagslífinu, körfuboltanum og píanóinu, svo sækir hann messur eins og enginn sé morgundagurinn, Logi Snær er á fullu í félagslífinu, körfuboltanum og fimleikunum og Daði Steinn er á fullu í leikskólanum - hann fær ekki að fara í neitt af því það er enginn tími fyrir það þar sem allt fyrir hann er um helgar - enda nógur tími framundan fyrir hann.

Ræktin:
miðvikudagur 19. sept. 3km á bretti á 16 mín.

sunnudagur, 26. ágúst 2012

Vinnan, Rvk-maraþon og ræktin!

Langt síðan maður nennti að setjast niður og blogga!
Vinnan byrjuð á fullum krafti og nemendur mínir mæta í kennslu á mánudag - verður spennandi að sjá hvernig foreldrum gengur að skilja þá við sig - en ég er að taka við 6 ára nemendum að hefja sína skólagöngu. Fékk alla í viðtöl í síðustu viku, en nú hefst s.s. alvaran á fullu.

Reykjavíkurmaraþonið (10 km) var á sínum stað 18. ágúst í dásamlegu veðri með nýmalbikuðum götum sem gerði það að verkum að það var varla hægt að anda á meðan maður hljóp þá kafla. Ég var samt sem áður mjög sátt við tímann minn 55:40 en eina markmiðið var að vera á undir 60 og líða vel eftir hlaupið.

Eftir sturtu og góðan hádegisverð brunaði ég svo í Baulumýri ásamt Daða Steini, Ingu og Heklu Björk, en Logi Snær hafði verið þar í vist alla vikuna hjá ömmu sinni, afa sínum og Hafrúnu Höllu. Þau skemmtu sér mikið og vel við leik og ýmsar ferðir. Við náðum að týna slatta af berjum og taka upp gulrætur til að taka með heim. Einhverjar myndir voru teknar þarna en ég hef ekki enn komið þeim í tölvuna svo þær koma bara seinna.

Daði Steinn byrjaði á Ugludeild núna í ágúst, en þar eru 3 - 5 ára börn, hann er alsæll með þetta enda í góðum höndum þarna. Ísak Máni byrjaði í unglingadeild og er kátur og glaður með það. Logi Snær er kominn í 3. bekk og líkar vel.

Ræktin:
laugardagur 18. ágúst 10 km á 55:40 mín.
Mánudagur 20. ágúst 1,5 klst kraftganga í Elliðaárdalnum
Þriðjudagur 21. ágúst 1,5 klst kraftganga í Elliðaárdalnum
Föstudagur 24. ágúst Tabata 55 mín.
Laugardagur 25.ágúst Esjan á 63 mín. P/G/M
Mánudagur 27. ágúst Tabata 60 mín
Miðvikudagur 29. ágúst Tabata 60 mín
Föstudagur 31. ágúst Tabata 60 mín.
Miðvikudagur 5. sept. Tabata 60 mín.
Föstudagur 7. sept. Tabata 60 mín.
Laugardagur 8. sept. 7,5 km á 40-45 mín.

miðvikudagur, 8. ágúst 2012

Baulumýri og fl.

Síðustu dagar sumarfrísins að renna sitt skeið, búið að vera alveg dásamlegt sumar. Fórum fyrir viku síðan í Baulumýri og áttum góða fimm daga þar. Ég týndi mikið af aðalbláberjum og nú á ég dágóðar byrgðir til að nota út á hafragrautinn á morgnanna. Þó ég eyddi nokkrum klukkutímum á dag í berjatínslu þá var ýmislegt annað brallað líka. Við fórum niður á fjöru og drengirnir sulluðu í sjónum og ósnum í blíðskapar veðri:




Trampolínið var mikið notað ásamt körfunni á pallinum. Ísak Máni og Logi Snær hoppuðu í Hamraendalækinn og léku sér í læknum. Ég náði strákunum einu sinni með mér upp í hlíð í berjamó og svo tókum við túristarúnt út á Arnarstapa og Hellnar. Ég, Ísak og Logi tókum þetta svo alla leið og röltum frá Hellnum yfir á Arnarstapa og strákarnir voru heillaðir af ströndinni:




Eftir sumarbústaðaferðina höfum við dundað okkur hérna heima, farið í sund og leikið við Heklu Björk. Einnig fengum við gott fólk í grillmat í gær, enda ekki seinna vænna þar sem Gulla og Rúnar Atli flugu á vit Afríkunnar í dag. Lífið fer að komast í fastar skorður, en búið er að snúa sólarhringnum á réttan kjöl hjá Daða Steini en hann fer í leikskólann á morgun og Davíð í vinnuna. Ég mæti svo til vinnu á mánudag.

Ræktin:
Nokkrar ferðir upp í hlíð að tína ber og ein ferð á fjöruna.
5. ágúst Hressileg ganga upp langageirann.
6. ágúst Esjan á 62 mín. Steinar Ingi á bakinu stóran hluta leiðarinnar. (með pabba og Guðrúnu)
8. ágúst 7,4 km skemmtiskokk með Ingu á 55 mín.
9. ágúst Esjan á 50 mín. Kraftganga stóran hring í kring um Rauðavatn.
10. ágúst Esjan á 59 mín. með pabba og mamma fór með okkur upp að brú og rölti svo á eftir okkur upp að læk - þetta eru bara snillingar!
12. ágúst Esjan á 61 mín. með pabba + 10km skokk með Ingu og Guðrúnu á 73 mín.


mánudagur, 30. júlí 2012

Á góðri stund...

.....í Grundarfirði var um helgina í blíðskaparveðri. Við vorum mætt í fjörðinn á miðvikudeginum. Eitthvað virðist vera farið að teygjast úr hátíðinni því byrjað var að skreyta á miðvikudeginum og svo voru frábærir tónleikar á fimmtudaginn með Helga Björns og reiðmönnum vindanna sem ég, Eygló, Ísak Máni, Logi Snær, pabbi og mamma skelltum okkur á, þar kom einnig fram karlakórinn Kári (ef ég man rétt) en það er sameiginlegur kór Grundfirðinga og Hólmara.

Sést kanski ekki sérlega vel, en þetta er heimild! Allir skemmtu sér mjög vel, þó svo Logi Snær og Ísak Máni hafi nú ekki haft úthald í alla tónleikana sem voru frá 21:30 - að verða 24.

Fjölmenni var á Smiðjustígnum þessa helgina en Jóhanna og co komu og einnig Gulla og Rúnar Atli.
Logi Snær fór á fimleikanámskeið hjá Gerplu, horft var á fótboltaleik, fimleikasýningu og brekkusöng. Lilli klifurmús og Mikki refur komu í heimsókn á laugardaginn ásamt fleirum skemmtiatriðum á bryggjunni, einnig var landhelgisgæsluskipið Þór skoðað. Skrúðgöngurnar voru að vanda á laugardagskvöldinu, en Daði Steinn var ekki alveg að halda þær út svo ég fór með hann heim að sofa á meðan hinir skemmtu sér.
Ég skellti mér svo í berjamó á sunnudaginn, en hafði farið í berjaleiðangur á föstudeginum til að kanna aðstæður, sá leiðangur kom svona líka glimrandi vel út að ég tíndi upp undir 3 kg á rúmum klukkutíma, svona leit þetta út:

Dásamleg alveg........

Ræktin:
Tveir góðir berjagöngutúrar í Grundarfirði.
30. júli Esjan á 60 mín. með pabba og Guðrúnu.
31. júlí Esjan á 56 mín. með pabba - svo upp á topp á tæpum 20 mín. (allir tímar miðast við Stein)




sunnudagur, 22. júlí 2012

Útilega og fleira

Þá er útilegu sumarsins lokið, en hún var heldur stutt í annan endann vegna rigningar - get ekki sagt að það sé spennandi að vera í útilegu í rigningu! Útilegan var samt hin skemmtilegasta en ég nenni ekki að fara yfir hana hér, heldur vísa ég bara í síðuna hans Davíðs sem gerði þessu góð skil. Eftir heimkomu hef ég aðallega stundað Esjugöngu og sundferðir. Stefnan er svo sett á Grundarfjörð á Góða stund og reyna að komast eitthvað í Baulumýri í berjamó áður en maður fer að vinna aftur um miðjan ágúst. Annars er bara lítið af okkur að frétta, bara allir búnir að snúa sólarhringnum við og erum við Daði yfirleitt fyrst að fara í bælið á kvöldin.

Ræktin:
Sunnudagur 15. júlí 9,3 km á 56 mín.
fimmtudagur 19. júlí Esjan á 64 mín. með pabba og Ingu.
Föstudagur 20. júlí Esjan á 60 mín. með pabba og Guðrúnu.
Sunnudagur 22. júlí Esjan á 57 mín. með pabba.
mánudagur 23. júlí Esjan á 62 mín. með pabba, Ísaki Mána, Ara og Jennýju.
Þriðjudagur 24. júlí Esjan (upp að læk) í hífandi roki á 42 mín. með pabba, Guðrúnu og Ara.

föstudagur, 6. júlí 2012

Snæfellsjökulshlaupið og fl.

Þegar ég byrjaði í sumarfríi var ég búin að ákveða að stunda Esjuna eins mikið og ég gæti. Það hefur nokkuð vel gengið eftir og er ég búin að draga pabba með í þónokkur skipti og mamma hefur stundum komið með líka - það hvetur mig svoldið áfram að hafa einhvern með í þessa vitleysu. Það blundaði lengi í mér að taka þátt í Snæfellsjökulshlaupinu, var samt ekki alveg viss um að ég væri manneskja í þetta, enda aðeins 22 km og svona eins og ein Esja í hækkun. Þegar veðurspáin var klár og ég búin að ná takmarkinu að komast upp að steini á 50 mín. þá skráði ég mig og ekki aftur snúið. Við brunuðum vestur á föstudegi og hlaupið var á laugardegi 30. júní. Ég fékk mikla hvatningu frá fjölskyldu og mér leið nokkuð vel með þetta allt saman þrátt fyrir aragrúa af einhverjum hlaupagúrúum við rásmarkið. Strax í upphafi var ég með þeim síðustu en þó var alltaf hópur stutt fyrir framan mig, en ég passaði mig að vera ekki að sprengja mig í upphafi og dólaði þetta á rólegu skokki þar til kom að Stapafellsbrekkunni, en hana er bara ekki hægt að hlaupa, eftir það var þetta skokk, ganga, skokk, ganga og allt í góðu. Gott að vita af powerade á næsta leyti, en það það voru fjórar drykkjarstöðvar á leiðinni. 5 km snjókaflinn var hins vegar ansi erfiður - á tímabili vissi ég ekki hvort ég myndi hafa þetta af, upp í móti í snjó sem maður sökk upp að ökkla - ekki spennandi. Á þessum kafla náði ein af þeim sex sem voru á eftir mér mér - hún ætlaði sér einfaldlega ekki að hlaupa ein! Ég hafði bara gaman af að hafa félagsskap og því skokkuðum við þetta í gegn saman þar til á endasprettinum þá skildi ég hana eftir, en henni fannst mun erfiðara að hlaupa niður en mér, mér fannst það bara frekar þægilegt, enda leið mér vel þegar í mark var komið og ég hafði ekkert yfirkeyrt mig. Strákarnir tóku vel á móti mér í marki:
Ísak Máni var farinn á fótboltaleik í Ólafsvík þegar myndatakan fór fram. Ég er hrikalega montin af sjálfri mér, en lengsta sem ég hafði hlaupið var 11 km, sem ég tvöfaldaði þarna á tímanum 2klst og 57 mín. Nokkuð fersk bara daginn eftir og engar harðsperrur, skellti mér svo bara á Esjuna á mánudeginum. Svo er bara að vera komin í örlítið betra form að ári. Ísak Máni og Logi Snær hafa svo bara þurft að sjá um sig sjálfir á meðan ég stunda mína Esju - eða þeir hafa vaknað og fengið sér að borða, en sólarhringurinn er orðinn eitthvað brenglaður hjá þessum elskum.
Tíu Esjuferðir komnar síðan 13.júní :-)

Í gær var svo hinn árlegi fjölskylduhittingur í Bröttuhlíð. Af því tilefni var smellt af mynd af öllum barnabörnum mömmu og pabba, en þau eru 11 talsins:
og ég er svo rík að eiga þrjá yndislega drengi á þessari mynd.

Ræktin:
laugardagur 30. júní Snæfellsjökulshlaupið 22 km á 2klst og 57 mín.
mánudagur 2. júlí Esjan 66 mín. P
miðvikudagur 4.júlí Esjan 65 mín. P og 3 km kraftganga
föstudagur 6. júlí Esjan 61 mín. P
laugardagur 7. júlí 11. ferðin á Esjuna á 60 mín. P Hrikalega stolt af pabba sem hefur bætt sig um heilar 10 mín. síðan hann fór að stunda þetta með mér. Líka hrikalega stolt af mömmu sem fer með okkur og fer eins langt og hún getur í hvert skipti - oft upp að læk.
mánudagur 9. júlí Esjan á 49 mín.
Miðvikudagur 11. júlí Esjan á 70 mín.P/I

miðvikudagur, 27. júní 2012

Mér finnst rigningin góð....

na, na, nanana. Sit hér heima dauðþreytt eftir grillveislu kvöldsins. Skelltum okkur upp í Guðmundarlund með 10 vini hans Ísaks Mána og eitthvað af nánustu ættingjum til þess að halda upp á 13 ára afmælið hans Ísaks. Var í glimrandi veðri í Húsdýragarðinum fyrir hádegi, en eftir hádegi fór að rigna og maður trúði því að þetta væri bara skúr....skúrin entist hins vegar til átta í kvöld, en þá stytti upp og sólin fór að glitta í gegn. Held samt að allir hafi skemmt sér vel og farið sáttir en blautir heim. Ísak Máni var vel sáttur með afmælið sitt og það er fyrir mestu.
Ég er búin að skrá mig í Snæfellsjökulshlaupið um næstu helgi, en eina markmiðið hjá mér er að komast í mark, enda eru þetta litlir 22 km, en ég er búin að æfa stíft á Esjunni undanfarið. Hlaupið er frá Arnarstapa yfir jökulhálsinn og niður í Ólafsvík.

Ræktin:
Sunnudagur 24. júní Esjan á 52 mín.
Þriðjudagur 26. júní Esjan á 50 mín. Góður göngutúr í Elliðaárdalnum.

mánudagur, 18. júní 2012

Sumarfrí

Þá er maður kominn í sumarfrí! Fyrsta daginn í sumarfríi var maður nú bara heima með veikt barn, en Logi Snær fékk einhverja magakveisu, en sem betur fer smitaðist enginn annar á heimilinu af þessu.
Logi Snær hefur svo stundað skemmtilega leiki og útivist á ævintýranámskeiði Boot camp undanfarið og hefur mikið gaman af. Ísak Máni útskrifaðist úr Háskóla unga fólksins á föstudag og er strax búinn að ákveða að halda áfram í Háskólanum á næsta ári. Daði Steinn heldur bara sinni rútínu á leikskólanum enn sem komið er.
Við skelltum okkur í Grundarfjörð á föstudag og vorum þar alla helgina, enduðum heimsóknina á glæsilegu útskriftarboði Jóhönnu á hótelinu þar sem hún bauð upp á ljúffenga þriggja rétta máltíð - flott það. Við vorum svo að skríða í bælið í Eyjabakkanum um hálf 2 í nótt. En mikið var samt gott að vakna í sínu eigin bæli í morgun.

Ræktin:
Fimmtudagur 14. júní  Esjan ásamt pabba.
Laugardagur 16. júní Kvennahlup ÍSÍ 4.5 km
sunnudagur 17. júní Grundarhlaupið 2,8 km
Mánudagur 18. júní Esjan ásamt pabba.
Þriðjudagur 19. júní Esjan 55 mín.
Fimmtudagur 21 júní Esjan 53 mín. + niður að brú og upp aftur.
Föstudagur 22. júní 9,3 km skokk á 55 mín.

Dásamlegt að æfa svona úti, en spurning um að reyna að skella sér eitthvað í ræktina til að halda við efri partinum.

sunnudagur, 10. júní 2012

Alveg að komast í....

sumarfrí!
Skólinn alveg að klárast, bara tveir starfsdagar eftir. Hlakka til, alltaf gott að komast í frí, en alltaf gott að koma aftur í vinnu að hausti.
Lítið gerst hjá okkur undanfarið annað en vinnan. Ísak Máni er að fara í Háskóla unga fólksins á morgun og verður þar alla vikuna, hann byrjaði líka í Boot camp í síðustu viku og æfir þar tvisvar í viku á móti körfuboltanum. Logi Snær byrjar á ævintýranámskeiði hjá Boot camp á morgun og er orðinn spenntur að prufa eitthvað nýtt. Frábær þjálfari sem er með þá báða, hress og skemmtileg að sögn Ísaks.
Ég hef verið með einhvern skít í mér alla vikuna, en er nú farin að eta ofnæmistöflur sem slá eitthvað á þetta - en er ekki alveg sátt. Skellti mér samt á Esjuna í morgun og rúllaði henni upp á 55 mín. og var ég mjög sátt, skokkaði svo alla leið niður og það tók mig svona 20 mín. Annar hefur ræktin alveg setið á hakanum síðan á mánudag, en þá tók ég einn Tabata tíma.
Set hér inn eina mynd af íþróttaálfinum mínum síðan í sveitaferðinni. Daði Steinn er heltekinn af íþróttaálfinum þessa dagana. Hann æfir hin ýmsu hopp og æfingar á gólfinu hérna á milli þess sem hann biður okkur um að fá að horfa á Lazy town á youtube.

fimmtudagur, 31. maí 2012

Enn meiri sól og enn meiri hósti...

Já það er fjör í sólinni hérna. Ég er að verða góð af mínu kvefi með hjálp læknastéttarinnar. Daði Steinn var fínn í gær, var þó farin að heyra aðeins asthmahljóð síðdegis og pústaði hann því áður en hann fór að sofa. Hann kom svo röltandi til mín milli tólf og eitt í nótt og ég hélt hann ætlaði að grilla mig hann var svo heitur. Það var settur stíll í rassinn og reynt að sofa sem gekk nú ekki sérlega vel næsta klukkutímann eða svo. Daði var í hálfgerðu móki og lét ýmis gullkorn flakka: Mamma eruð þið pabbi unglingar? Svo kom: Pabbi, nei Stína (og svo ekki meir, Stína vinnur á leikskólanum). Eitt sinn reis hann upp og sagði mamma má ég knúsa þig og að sjálfsögðu fékk hann það og svo var hann oltinn útaf aftur, eitthvað fleira kom sem ég man ekki í augnablikinu.
Við fengum tíma hjá doksa í morgun og var hann sendur í lungnamyndatöku og út úr því kom að það er eitthvað byrjað að grassera þar, ekki orðin lungnabólga en eitthvað á byrjunarstigi, sýklalyf málið og svo er bara að vona að hitinn haldi sér niðri, en hann er búinn að hanga í 39 í meira og minna allan dag þrátt fyrir stíla, þangað til í kvöld þegar hann fór að sofa. Það verður því bara meira heimafjör á morgun í sólinni. Spurning svo hvort við náum sveitaferðinni á laugardaginn - það verður tíminn að leiða í ljós.
Engin rækt verið þessa vikuna :-(, en stefnt að því að gera eitthvað í næstu viku.

mánudagur, 28. maí 2012

Sól, hor, hósti og ýmislegt annað!

Jebb, veðrið leikur við okkur þessa dagana, ég er hins vegar búin að vera hálf tæp af einhverjum flensuskít síðan á fimmtudag. Við létum það ekki stoppa okkur og vorum með gríðarlegt evróvision partý á laugardaginn þar sem Guðrún og Steinar Ingi mættu. Daði var hæstánægður með partýgestina og lék við hvern sinn fingur í kring um Steinar Inga
Logi Snær fékk líka eitthvað að vera með, en Ísak Máni var ekki til í að vera með í myndatökunni
Í gær tókum við svo afmælisrúnt á Leiðarenda til Ingu, Gunna og Heklu, þar var sól og blíða og flott trampolín sem var mikil gleði með. Við mættum með afmæliskökuna hans Davíðs með okkur og slógum upp afmæliskaffi í sólinni
Sumir nýttu tímann vel og náðu að skella sér í pottinn líka. Þarna var allt mjög friðsamt......en það skiptast á skin og skúrir í vináttunni eins og öðru.

Eitthvað hefur ræktin setið á hakanum undanfarið vegna slappleika.
Ræktin:
Miðvikudagur 23. maí TNT 60 mín
Föstudagur 25. maí Tabata 60 mín.
Svo er bara að fara að taka á því aftur.

sunnudagur, 20. maí 2012

Helgin

Dásamleg helgi að baki. Fjölskyldan skellti sér vestur á föstudaginn eftir vinnu hjá Davíð. Fyrsta stopp var í Baulumýri þar sem strákarnir fengu að hoppa og skoppa áður en Davíð hélt með þá áfram í Grundarfjörð þar sem þeir ætluðu að eyða helginni. Ég ákvað hins vegar að vera áfram í Baulumýri og Logi Snær var smá hissa á því þangað til hann fann réttu skýringuna: Ég ætlaði AUÐVITAÐ að vera hjá mömmu minni og pabbi hans hjá mömmu sinni. Laugardagurinn fór í að stinga upp kartöflugarða og setja niður kartöflur fram á hádegi. Eftir hádegi fórum við pabbi í fjárhúsin að marka, endurtókum svo þann leik í allan dag. Mikið getur það stundum verið gott að slást við rollur og lömb sem bara slást við mann en eru ekkert að tuða - ágætis tilbreyting þó svo gott hafi verið að fá alla strákana aftur í dag. Vorum ekkert að flýta okkur heim, enda dásamlegt veður til að hoppa á trampolíni í Baulumýri. Lentum svo í Eyjabakkanum rúmlega hálf 9 og ekki allir sáttir við að fara í bælið.

Ræktin síðustu tvær vikur:
Mánudagur 7. maí Tabata 60 mín. Skokk 5.5km + kraftganga í 90mín.
Þriðjudagur 8.maí frí
Miðvikudagur 9. maí frí
fimmtudagur 10 maí frí
föstudagur 11. maí frí
laugardagur 12. maí 8.7 km á 53 mín.

Mánudagur 14. maí Tabata
Þriðjudagur 15.maí frí
Miðvikudagur 16.maí TNT 60 mín
fimmtudaguar 17. maí 10 km á 60 mín.
Föstudagur 18. maí frí
Laugard og sunnud. átök í sveitinni.

sunnudagur, 6. maí 2012

Baulumýri

Þessari helgi sem er að ljúka eyddum við í Baulumýri. Planið var að græja gulræturnar, garðurinn var stunginn upp á laugardag en sökum hraða á rokinu var ekki hægt að sá fyrr en í fallega verðrinu í dag. Ég fékk mikla hjálp frá öllum drengjunum mínum og pabba mínum - ætli ég leyfi þeim ekki að njóta uppskerunnar með mér ef hún verður góð - nógu mörg fræ fóru allavega í moldina. Yndislegt alltaf í Baulumýri og alltaf gott að koma heim líka. Fórum lengri leiðina heim og komum við í Grundarfirði - allir nema Logi Snær sem vildi ekki yfirgefa Baulumýri strax og fékk að vera áfram fram á þriðjudag þegar amma hans og afi koma í bæinn.

Ræktin:
mánudagur 30. apríl Tabata 60 mín.
þriðjudagur 1. maí Skokk 5,5 km á 34 mín.
miðvikudagur 2. maí TNT 60 mín.
Fimmtudagur 3. maí frí
föstudagur 4. maí Tabata 60 mín.

laugardagur, 28. apríl 2012

Innivera og útivera

Dagarnir líða áfram og áður en maður veit af verður komið sumarfrí. Nóg að gera hjá öllum á lokasprettinum, uppskeruhátíð í körfunni 12. maí, tónleikar hjá Ísaki Mána einnig þá, hann er einnig að fara að taka grunnpróf í píanóleik um miðjan maí. Logi Snær verður með fimleikasýningu 17. maí og svo verða einhver próf í skólanum hjá drengjunum. Ætlunin hjá mér er að reyna að komast vestur fljótlega og sá gulrótum í garðinn minn góða. Daði Steinn vill helst vera úti að leika þegar hann hefur lokið leikskóladeginum og held ég að það væri gott fyrir hann að komast í Baulumýri þar sem hann getur leikið frjáls úti í náttúrunni. Rigning í dag og því ákveðið að taka inniveruna á þetta fyrri hluta dags - ákveðið var því að skella sér í íþróttahúsið í skólanum og láta alla rasa út þar í c.a. tvo tíma. Við Daði Steinn tókum samt útiveruna á þetta seinni partinn á meðan Ísak Máni eldaði þennan fína fiskrétt í kvöldmatinn. Hann eldaði þetta í heimilisfræði og heimaverkefnið hans var að elda þetta fyrir fjölskylduna, hann stóð sig vel og voru allir fjölskyldumeðlimir nokkuð sáttir við matinn - gerist ekki oft! Stefnir í ágætis veður á morgun og þá verður fjölskyldan örugglega drifin út til að fá útrás.

Ræktin:
Laugardagur 21. apríl: Cross fit æfing hjá Annie Mist ca. 60 mín.
mánudagur 23. apríl: Tabata 60 mín. Hlaup 2,3km. Kraftganga í 70 mín.
þriðjudagur 24 apríl: frí
miðvikudagur 25. apríl: TNT 60 mín.
Fimmtudagur 26. apríl: 3x400m sprettir á 12,5, 1x500m sprettur á 13,5. Róður, Stigvél(10mín) + magi+armb. =60 mín.
Föstudagur 27. apríl: Tabata 60 mín.
Laugardagur 28. apríl: Íþróttahúsið í 2 klst.

föstudagur, 20. apríl 2012

Gleðilegt sumar..

..og takk fyrir veturinn. Hóf sumardaginn fyrsta á morgunskokki um Elliðaárdalinn í aldeilis fallegu og björtu veðri. Svo lá leið mín út á leikskóla þar sem sumarhátíð foreldrafélagsins var haldin. Við fengum Krakkahesta til að koma og teyma undir börnunum og vakti það mikla lukku. Daði Steinn og Logi Snær fóru sitt hvora ferðina, Logi á Tígul og Daði á Mola. Svo voru grillaðar pylsur ofan í mannskapinn áður en haldið var heim.
Davíð fór með eldri drengina tvo á tónleika í Hörpunni eftir kaffi, en við Daði lögðum okkur aðeins áður en við héldum út í góða veðrið og skemmtum okkur vel í tvo klukkutíma við leik - þá var ég búin að fá nóg og vildi fara inn, annað en sumir :-/
S.s. góð byrjun á vonandi góðu sumri.

Ræktin:
Mánudagur 16. apríl Tabata 60 mín, hlaup úti ca 5km og kraftganga í 60 mín.
Þriðjudagur 17. apríl frí
miðvikudagur 18. apríl TNT 60 mín
fimmtudagur 19 apríl 8.4 km á 49 mín. úti
föstudagur 20. apríl Tabata 60mín.

mánudagur, 16. apríl 2012

Árinu eldri...

Jæja árin halda áfram að færast yfir þó svo maður yngist bara í anda. Það var að sjálfsögðu stjanað við mann í gær - allavega keypt kaka og engin venjuleg kaka, heldur ekta frönsk súkkulaðikaka frá Jóa Fel, mmmm hún var svooo góð.
Ég skrapp skottúr í Baulumýri á laugardag, fór með mömmu og pabba en þau voru að fara með fulla kerru af eldivið sem þurfti að losa inn í eldiviðarskúr, það var bara dásamlegt að taka smá rúnt án alls áreitis frá börnum, enda ekkert sérstakt um að vera hjá þeim þessa helgi. Sumardagurinn fyrsti nálgast óðfluga en þá er fimleikasýning hjá Loga Snæ, sumarhátíð hjá Daða Steini og einhverjir tónleikar sem Ísak Máni, Logi Snær og Davíð áætla að skella sér á. Ég hefði nú líka alveg viljað taka þátt í fyrsta sumar Powerade hlaupinu sem er þennan dag líka, en ég sé ekki alveg fram á að það rúmist í tímaplaninu - bara gott að hafa nóg að gera.

Ræktin
Mánudagur 9. apríl frí - eða keyrsla frá Suðureyri
Þriðjudagur 10. apríl 5 km á bretti og ýmsar styrktaræfingar = 60 mín.
miðvikudagur 11. apríl TNT 60 mín
fimmtudagur 12. apríl 1 km á hraða 11 og 4x 400m sprettir á 12,5. Tabataæfingar með lóðum.
föstudagur 13. apríl Tabata 60 mín.

mánudagur, 9. apríl 2012

Páskar á Suðureyri 2012

Páskafríið langt komið og erum við búin að vera í góðu yfirlæti á Suðureyri síðan á miðvikudag, en þann dag tókum við í að rúnta í sveitina c.a. 5 tímar. Rigningarsuddi mest allan tímann, en samt alveg hægt að vera úti með drengina að leika. Ferming hjá Daníeli Viðari í gær og var það mjög flott og strákurinn mjög flottur. Veðrið var farið að versna í gærkvöld, farið að snjóa og svoldið hvasst. Þegar við vöknuðum svo í morgun leist okkur nú ekki alveg á blikuna, héldum að við hefðum lent á annarri plánetu, allt hvítt og sæmilegir skaflar höfðu myndast hér og hvar. Öllum var því skellt í morgunmat, dótinu hent út í bíl og brunað af stað um kl. 9:30. Mér leist nú ekki alveg á byrjunina, en það var alveg blint og snjór á veginum inn Súgandafjörðinn - það var gott að komast í göngin :-) Færð og veður var svo þokkalegt fram að Steingrímsfjarðarheiði þó ferðahraðinn væri ekki gríðarlegur hjá okkur. Það virtust ekki margir hafa farið heiðina þegar við fórum hana, en skyggnið var ekkert á tímabilum, en annars mjög lítið, allt hafðist þetta og var ákveðið að hafa matarstopp í Búðardal, enda flestir farnir að halda verulega í sér :-/ Það virðist eitthvað hafa gengið meira á á eftir okkur því við fréttum það í Búðardal að slatti af bílum hefðu farið útaf og einhverjir fest sig (í eina skaflinum á heiðinni). Við vorum því nokkuð fegin því að hafa farið af stað á undan öllum öðrum - held að við höfum ekki mætt einum einast bíl á heiðinni sjálfri. Þegar við keyrðum svo út Dalina og yfir Bröttubrekku var eins og við værum komin í annað land, þvílík voru veðurskiptin. Úr blindhríð yfir í glampandi sól og græn tún.
Ferðin tók okkur aðeins rúma 7 klukkutíma með c.a hálftíma stoppi í Búðardal  - það er allavega gott að vera komin heim.
Frábær páskahelgi að baki og gaman að skella sér á Suðureyri, enda vel gert við mann.
Elsku Jóhanna, Elli, Daníel og Aron Kári kærar þakkir fyrir okkur.

Ræktin:
Mánudagur 2.apríl Tabata 60 mín.
Þriðjudagur 3. apríl Hot Balance 60 mín.
Miðvikudagur 4. apríl TNT 60 mín.
Fimmtudagur 5. apríl Fitness box á Suðureyri 50 mín.
Föstudagur 6. apríl 5km í sjávarilm á Suðureyri
Laugardagur 7. apríl frí
Sunnudagur 8. apríl frí

mánudagur, 2. apríl 2012

Páskafrí??

Tæknilega séð á ég að vera komin í páskafrí, en til að koma ekki beint í kennslu eftir páska óundirbúin hef ég tekið þá ákvörðun að vinna í páskafríinu og skelli mér því í vinnuna í dag og set stóru strákana mína í íþróttahúsið að djöflast á meðan - góður díll sem allir eru sáttir við.

Það var tvöföld afmælisveisla um helgina í Stórakrika, Daði og Hekla héldu þriggja ára veisluna sína saman.



Ísak Máni var einnig að keppa í körfubolta um helgina, úslitatúrnering í 7.flokki, ekki gekk flokknum sem skildi, en Ísak Máni var að standa sig ljómandi vel og setti niður slatta af körfum.


Ræktin:
Mánudagur 26. mars Tabata 60 mín
Þriðjudagur 27.mars Frí
Miðvikudagur 28. mars TNT 60 mín
Fimmtudagur 29. mars 5km/30mín. Tabata 35 mín.
Föstudagur 30 mars Tabata 60 mín.

mánudagur, 26. mars 2012

3.ára

Hann á afmæli í dag.............hann Daði Steinn........hann er 3. ára í dag.



 Til hamingju elsku hjartans kúturinn minn með öll þrjú árin. Myndirnar hérna fyrir ofan eru allar teknar 26. mars (sú síðasta reyndar 25.)

Ræktin:
Mánudagur 19. mars Tabata 60 mín
Þriðjudagur 20. mars Bretti og 3x sett (magi, armb, planki) 60 mín
Miðvikudagur 21. mars TNT 60 mín.
Fim.+fös=veik :-(

þriðjudagur, 20. mars 2012

Ræktin og annað

Er eitthvað að rugla kerfinu núna að blogga einu sinni í viku og þar með hreyfingarskráningunni minni.
Svosem lítið að frétta hérna, Davíð skrapp í vinnuferð í síðustu viku í tvo daga. Loga Snæ tókst að fá heiftarlegann hálsríg á miðvikudaginn, mamman var samt svo grimm að hún dröslaði honum í skólann, kom honum þó ekki í sinn bekk, heldur var hann hjá mér á meðan ég var að undirbúa (kenni ekki tvo fyrstu tímana á miðvikudögum). Þetta var hins vegar ekki að ganga og mamman varð að trúa því að þetta væri alvöru og varð að fara með kauða heim. Honum var svo bara gefin verkjalyf og settir á hann heitir bakstrar. Þetta tók nokkra daga að linast upp en hann var orðinn góður um helgina.
Næstu helgar eru pakkaðar af dagskrá, páskabingó í leikskólanum, árshátíð og skírn um næstu helgi. Körfubolti og tvöfalt afmæli hina helgina og svo skella páskarnir á eftir það og þá er ferðinni heitið á Suðureyri. Meira um það síðar.

Ræktin:
Sunnudagur 11.mars 3x1000 m sprettir á 12,5 + 2 sett af maga, armb. og planka
Mánudagur 12. mars Tabata 60 mín. + 70 mín kraftganga í Elliðaárdalnum
Þriðjudagur 13. mars Frí
Miðvikudagur 14. mars Frí
Fimmtudagur 15. mars 3x1000 m sprettir á 12,5 + 2 sett af maga, armb. og planka
Föstudagur 16. mars Tabata
Laugardagur 17. mars 90 mín í íþróttahúsinu í Breiðholtsskóla (Ýmsar æfingar)

laugardagur, 10. mars 2012

Körfuboltahelgi

Þessi helgi eins og sú síðast lituð af körfuboltamóti.
Síðustu helgi var Logi Snær að keppa á Nettómótinu í Keflavík, einn leik á laugardeginum og þrjá á sunnudeginum. Hann stóð sig alveg glimrandi vel og hefur sýnt miklar framfarir í vetur. Náði á videó í símanum mínum ágætis sókn hjá Loga Snæ sem endaði að sjálfsögðu með körfu.

Ísak Máni var svo að keppa með 8. flokk í dag, átti að spila þrjá leiki en þar sem Höttur komst ekki frá Egilsstöðum urðu þeir bara tveir, á móti Ármanni og Hrunamönnum. Sigur í báðum leikjunum og átti Ísak Máni mjög flotta leiki og fékk að spila mikið, en ég hef ekki séð hann spila með 8. flokk áður - alltaf verið einhvers staðar á landsbyggðinni og Davíð séð um það. Vorum ekki með myndavél með okkur og ég fattaði ekki að taka upp á símann. Það verður bara gert næst, en eftir þrjár vikur spila þeir loka túrneringuna í 7. flokk og þá eru þeir einfaldlega að spila um Íslandsmeistaratitilinn. Það er til mikils að vinna því Davíð ætlar að bjóða öllu liðinu á Nings ef þeir landa titlinum.

Ræktin:
Mánudagur 5.mars Tabata 60 mín.
Þriðjudagur 6.mars Spinning 60 mín.
Miðvikudagur 7.mars TNT 60 mín.
Fimmtudagur 8.mars Powerade hlaup 10 km á 60:37 - nokkurra sekúndna bæting :-)
Föstudagur 9.mars Tabata 60 mín.

laugardagur, 3. mars 2012

Gullkorn

Við Daði Steinn skruppum í Mosó í gær til að sækja Loga. Daði Steinn fann sér púsl til að púsla og sat við hlið ömmu sinnar, hún fór eitthvað að fíflast í honum og segja að bitarnir væru ekki á réttum stað þó þeir væru þar. Daði Steinn var ekki alveg sáttur við þetta og stóð upp frá borðinu og fór. Næsta sem ég sé er að hann er að reyna að komast inn í svefnherbergi ömmu sinnar og afa svo ég segi honum að hann eigi nú ekki að fara þarna inn, hann mótmælir og segir að hann verði að fara þarna - hann þurfi að ná í gleraugu fyrir ömmu sína :-) Hann s.s. lagði saman tvo og tvo - fyrst hún gat ekki séð að hann væri að gera rétt þá yrði hún bara að setja upp gleraugun sín.  Hann er nú óttalegur snillingur þessi elska - eins og bræður hans.
Körfuboltaprógram þessa helgi hjá Loga Snæ og næstu helgi hjá Ísaki Mána - alltaf nóg að gera.

Ræktin:
mánudagur 27.feb. Tabata 60 mín.
þriðjudagur 28. feb. Spinning 60 mín.
miðvikudagur 29. feb. TNT 60 mín.
fimmtudagur 1.mars Spinning 60 mín.
föstudagur 2. mars Tabata 60 mín.
laugardagur 3.mars Íþróttahús Breiðholtsskóla 60 mín. allt mögulegt.

sunnudagur, 26. febrúar 2012

Flenskuskítur og frábært boð!

Hérna hefur flensan hafið innreið sína. Hor, hósti, hálsbólga og hiti. Ísak Máni var orðinn slappur á sunnudag fyrir viku er búinn að vera rúmliggjandi síðan, fékk þó aðeins að fara í smá bíltúr með pabba sínum áðan, enda orðinn hitalaus. Daði Steinn var svo kominn með hita á þriðjudag og er búinn að vera funheitur síðan - fyrsti dagurinn í dag sem hann fer undir 38 stig. Hann er hins vegar með asmapúst og því hefur hóstinn hans ekki orðið eins harður og hjá Ísaki.  Við hin þrjú erum þokkaleg og vonandi verðum við það áfram.
Á föstudagskvöld bauð Dagmar mér og Eygló í mat og sýningu í Hússtjórnarskólanum þar sem hún stundar nám. Skemmst frá því að segja að þarna var borinn á borð dýrindis matur - eiginlega bara sjúklega góður og frábært að sjá hvað stúlkurnar þarna eru svo að gera flotta hluti í höndunum - Takk fyrir mig Dagmar.

Ræktin:
Mánudagur 20.feb: Tabata 60 mín
þriðjudagur 21.feb : Spinning 60 mín
miðvikudagur 22.feb : TNT 60 mín
fimmtudagur 23. feb: Spinning 60 mín
Föstudagur 24. feb: Tabata 60 mín
sunnudagur 26. feb: Hot asthanga yoga 60 mín.

mánudagur, 20. febrúar 2012

8 ára

Jebbs, það eru átta ár síðan Logi Snær fæddist í þennan heim.
Í gær var konudags - bollu - afmæliskaffi í Eyjabakkanum.
Í dag var hins vegar mikið fjör í Ævintýragarðinum þegar 14 7-8 ára strákar mættu í sameiginlegt afmæli Loga Snæs og Ingvars bekkjarbróður hans. Mikið hlaupið, hoppað og hamast nánast stanslaust frá kl. 16 til 18 með smá matarhléi sem varði í kanski 15 mínútur. Algjör snilld, sérstaklega þegar tveir taka sig saman. Ég myndi allavega ekki vilja fá þessa 14 heim til mín í tvo tíma. Nokkrar myndir fylgja svo hérna frá deginum í dag. Daði Steinn fékk að fara með, en Ísak Máni lá heima með hita.




Mis gáfulegt lið - en allir komu heilir út úr þessu (eða allavega eins heilir og þeir voru fyrir he, he.) - sem var fyrir mestu og afmælisbarnið sátt með lífið og tilveruna.

sunnudagur, 19. febrúar 2012

Ræktin

Rétt aðeins að henda inn rækt vikunnar áður en ný ræktarvika hefst. Kem svo vonandi með afmælisblogg á morgun.

Ræktin.
mánud. 13.feb. Tabata 60 mín
þriðjud. 14.feb. Hot yoga 60 mín
miðvikud. 15. feb. T.N.T 60 mín
fimmtud. 16. feb. Hot yoga 60 mín
föstud. 17.feb. Tabata 60 mín
laugard. 18.feb. Spinning 60 mín.
Spurning um að reyna að fylgja vel heppnaðri ræktarviku eftir inn í þá næstu.....kemur í ljós.

sunnudagur, 12. febrúar 2012

Körfuboltahelgi

Góð helgi í körfunni hjá Ísaki Mána staðreynd. 7. flokkur að keppa í B riðli í Seljaskóla og markmiðið var að koma sér upp í A riðil og enda keppnistímabilið þar. Það tókst eftir háspennuleik við Njarðvík 34 - 31 og strákarnir komnir upp í A riðil.


Ræktin:
Mánudagur 6. feb. Tabatatími
Miðvikudagur 8. feb. TNT tími
Fimmtudagur 9. feb. Poweradehlaup 10km á 60,49 mín (mjög sátt, enda hávaða rok)
Föstudagur 10. feb. Tabatatími
Sunnudagur 12. feb. Hot asthanga jóga.
Flott hjá sjálfri mér :-) he, he.

mánudagur, 6. febrúar 2012

Vitnisburður

Allir flottu strákarnir mínir fengu vitnisburð í síðustu viku. Daði Steinn fór í 2 1/2 árs skoðun á heilsugæslunni og fékk 10 í einkunn (að vísu í ferð tvö - hann var ekki samvinnufús í fyrstu ferð, og ekki eins vel tekið á móti honum þá). Logi Snær fékk mjög gott í öllu og A í skólafærni - fengi samt ekki A í heimafærni þessa dagana, er eitthvað í valdabaráttu við yngri bróðir sinn. Ísak Máni skilaði meðaleinkuninni 9,2 út úr miðsvetrarprófunum og er það alveg glæsilegt hjá honum, eins og hinum tveimur. Ég er ótrúlega stolt af þessum flottu strákum mínum.

Ræktin:
Föstudagur 3.feb. Tabatatími.
Laugard. 4.feb. Jóga
Sunnud. 5.feb. 9,2 km úti á 55 mín.
mánud. 6.feb. Tabatatími.

þriðjudagur, 31. janúar 2012

Myndablogg

Loksins koma hér nokkrar myndir af fallegu og duglegu drengjunum mínum. Ekki er ég þó enn búin að ná öllum snjómyndunum úr símanum mínum, en ef einhver hefur þekkingu á því hvernig maður getur á einfaldan hátt fært myndir úr samsung galaxy síma inn í mac tölvu þá væri vel þegið að fá upplýsingar um það. Legg það ekki á Davíð aftur að fara í gegn um það ferli sem hann fór í gegn um til að koma þeim inn síðast.












Þungt og mikið blogg, myndirnar eitthvað búnar að vera að stríða mér. Þær eru lýsandi fyrir heimilishaldið hérna - körfubolti, tölvunotkun og líf og fjör þegar menn eiga að fara að sofa. Svo fylgdi þarna ein mynd úr snjókomunni um daginn.

Ræktin:
Miðvikudagur 25. jan. Body pump
föstudagur 27. jan. Tabata/bjöllur
sunnudagur 29. jan. 7 km á 42 mín og 3/4 body pump tími.

mánudagur, 23. janúar 2012

Ræktin og lítið annað..

Lítið að gerast merkilegt á þessum bænum. Allir búnir að vera frekar kvefaðir og slumpulegir síðustu viku og lítil útivera samhliða því.
Brjálað að gera næstu helgi hjá öllum. Körfuboltamót hjá Ísaki Mána á Flúðum, Logi Snær er að fara á Póstmót Breiðabliks í körfu, eitthvað afmælisdæmi í vinnunni hjá Davíð á laugardaginn og svo matur um kvöldið. Spurning um að klóna sig ef Logi Snær á að keppa á laugardag líka.

Ræktin:
Mánudagur 16.jan. Tabata/bjöllur
Miðvikudagur 18.jan Body pumt
Föstudagur 20.jan Tabata/bjöllur
Sunnudagur 22.jan. Body pump
Mánudagur 23. jan. Sumba tími
Engir 10 km þessa vikuna vegna kvefs:-(

laugardagur, 14. janúar 2012

Af ýmsu!

Hérna er bara allt gott að frétta. Snjórinn búinn að vera að hrella borgarbúa undanfarna daga áður en rigningin og hálkan fór að hrella þá. Logi Snær og Ísak Máni þurftu að sleppa fimleikaæfingu og píanótíma á þriðjudaginn þar sem ég ákvað að fara ekki út í öngþveitið á götum borgarinnar. Annars er nú ekki oft í boði að sleppa tímum.
Á mánudagskvöld eignuðumst við lítinn frænda þegar Guðrún fæddi rúmlega 16 marka drengl
Annars snýst lífið mest um vinnuna, tómstundir og ræktina. Ég guggnaði hins vegar á að fara í Powerade hlaupið á fimmtudag, var ekki alveg viss með færðina, en bætti úr því með hlaupi á söndugum klaka í dag - ótrúleg andleg lækning að komast ÚT að hlaupa.
Ætlaði að henda inn nokkrum myndum af drengjunum, en eitthvað er það að vefjast fyrir mér að koma myndunum úr nýja fína símanum inn á tölvuna - það hlýtur að koma með tíð og tíma.
þangað til næst....

Ræktin:
Sunnudagur 8.jan. 8.2km á 48 mín. á brettinu.
Mánudagur 9.jan. Tabata/bjöllur
Miðvikudagur 11.jan Body pump
Föstudagur 13.jan. Tabata/bjöllu
Laugardagur 14.jan. 10 km á 65 mín.

föstudagur, 6. janúar 2012

Gleðilegt nýtt ár!

2011 búið og 2012 komið á fullt skrið.
Áramótin komu og fóru í góðum gír, en við vorum í Stórakrika hjá Ingu, Gunna og Heklu, þar voru líka Guðrún og Jökull og pabbi og mamma. Tóm gleði og góður matur.
Allt komið á fullt skrið í skóla og frístundum, sem þýðir það einfaldlega að ég er komin á fullt í skutlið og allt sem því fylgir. Logi Snær er kominn af stað í körfuboltann og fimleikana og Ísak Máni í körfuboltann og píanóið. Daði Steinn fær bara að vera á leikskólanum, enda nokkuð sáttur þar þrátt fyrir smá mótmæli suma morgna.
Daði Steinn tók tvo daga í eitthvert asthma dæmi, en með reglulegu pústi höfum við náð að halda því niðri.
Stefnan í ár er að koma sér í gott líkamlegt form og hlaupa einhver 10 km hlaup og hafa gaman af því.

Ræktin:
laugardagur 31.des. 10km á 58 mín. Gamlárshlaup ÍR
mánudagur 2.jan. Tabata tími með bjöllum.
miðvikudagur 4. jan. Body pump tími.
föstudagur 6. jan. Tabata tími með bjöllum