laugardagur, 31. desember 2016

Árið 2016

Markmiðið var að henda inn örlitlu bloggi um hvern mánuð á árinu, en það entist fram í maí - síðan hefur ekkert verið ritað hér.
Ég held að árið 2016 hafi bara í heildina verið mjög gott ár. Ég kenndi 2.bekk í Breiðholtsskóla þar til sumarfríið hófst, en eftir sumarfrí hófst nýr kafli en þá settist ég á skólabekk sjálf enda hafði ég fengið úthlutuðu launuðu námsleyfi. Ég byrjaði því eftir 14 ára hlé að mæta aftur í gamla góða Kennó í september en þar stunda ég Dipómanám í námi og læsi barna, en geri ráð fyrir að demba mér aftur í kennsluna í haust. Ég fór fyrstu ferð ársins á Úlfarsfellið í mars og þegar þetta er ritað eru þær orðnar 70 - oftast fór ég ein, en oft með mömmu og pabba, nokkrar með Ísaki og svo fengu Jóhanna, Inga, Guðrún, Erla og hinir strákarnir mínir stundum að koma með. Fimm ferðir voru farnar á Esjuna og fór Daði Steinn m.a. sína fyrstu ferð upp að Steini með mér. Helgafell í Hafnarfirði var farið tvisvar, annað skiptið með Jóhönnu og hitt með mömmu, pabba, Loga og Daða. Smalaferðir urðu sjö sem ég get talið sem fjallgöngu og grasa/berjaferðir tvær sem urðu að fjallgöngu með. Hápunkturinn var svo ferð á Hafursfellið með mömmu og pabba, en sú ferð var alveg dásamleg í dásamlegu veðri og væri gaman að gera þetta að árlegum viðburði. Þegar ég byrjaði að labba á Úlfarsfellið var ég ekkert að stefna á einhvern fjölda ferða, en veðrið er búið að vera einstaklega hagstætt í haust og frelsið sem fylgir því að vera í námsleyfi gerir það að verkum að ég get farið þegar mér hentar og í stað þess að borga fyrir kort í líkamsrækt þá hefur þetta og sundið verið mín líkamsrækt. Ég setti mér hins vegar markmið í sundinu fyrir árið, en það var að synda 100km á árinu, það tókst og endaði kílómetrafjöldinn í 132,625km eftir sundferð dagsins. Oftast var farið í Breiðholtslaugina, en nokkrum sinnum í Lágafellslaug og Kópavogslaug til að komast aðeins í kalda pottinn líka.

Drengirnir mínir blómstra í sínu. Ísak Máni er nú hálfnaður með Kvennó og líkar lífið vel, hann stundar körfuboltann af kappi sjálfur, en einnig þjálfar hann stráka í 10.flokki við góðan orðstír. Logi Snær er einnig á kafi í körfuboltanum og stendur sig afar vel þar eins og á öðrum sviðum. Daði Steinn er á fullu í fótbolta og lætur stundum plata sig í að fara á körfuboltaæfingar með Ísaki þegar hann er að þjálfa 3. og 4. bekk. Hann ræktar einnig vel samband sitt við Markús vin sinn sem býr í Hlíðunum, en vinátta þeirra er alveg frábær. Hann er einnig að rúlla upp náminu í 2.bekk og les eins og herforingi. Davíð heldur sínu striki í vinnunni sinni hjá Nathan og Olsen, skipuleggur keppnisferðir hjá drengjunum sínum og reynir að rækta sjálfan sig.
Heilsan hefur verið nokkuð góð hjá öllum í vetur og lítið um veikindi fyrir utan hlaupabóluna hjá Daða Steini sem fékk hana af krafti og varð ansi lasinn.

Engin föst markmið í hreyfingu fyrir 2017 önnur en þau að hafa gaman af því sem ég er að gera og njóta og líða vel af því. Hvað ferðirnar verða margar á fjöll eða fell skiptir ekki máli á meðan mér líður bara vel af þessu - það verður þó stefnt að sama markmiði í sundinu eða 100km, en það er bara til að halda mér við efnið. Að örðu leyti fara næstu mánuðir í lærdóm og í að fylgja drengjunum eftir í sínum íþróttum - hlakka bara til 😏fimmtudagur, 2. júní 2016

Maímánuður

Eftir nokkurn slappleika og flensuskít í apríl þurfti að vinna upp hreyfingaleysi þess mánaðar í apríl. Ég var dugleg að fara á Úlfarsfellið, ýmist með mömmu og pabba, Ingu, Guðrúnu eða bara ein eins og varð raunin oftast. Ég synti líka 11.km þennan mánuðinn. Um hvítasunnuhelgina fór ég með Daða Steini og Loga Snæ í Baulumýri og eyddum við mestum tíma í sauðburði og markastússi á Knörr. Ísak Máni varði Íslandsmeistaratitilinn með sínu liði í körfubolta og er þetta þriðji titillinn á þremur árum. Logi Snær fékk viðurkenningu fyrir að vera efnilegastur (ásamt tveimur öðrum) í 7. flokk í körfunni. Daði Steinn stundar fótboltann en vill helst bara vera á mótum - hver þarf svosem að mæta á æfingar. Davíð og Ísak stunda ræktina eins og enginn sé morgundagurinn. Ísak Máni lauk 1.ári í Kvennó með sæmd og vinnur allar vaktir sem í boði eru í Hagkaup. Nú er sumarfríið að bresta á og allir tilbúnir í það.
          

miðvikudagur, 13. apríl 2016

Síðbúin marsfærsla

Úff, kominn miður apríl og ég átti að vera löngu búin með mars færsluna - og nú man ég ekki hvað ég gerði í mars.

Held að ég hafi farið í sund, meira í sund og meira í sund. Ég fór líka fyrstu ferð á Úlfarsfell á þessu ári.
Ísak Máni fór í keppnisferð á Scania cup í Svíþjóð um páskana og með honum í för voru Davíð  og Logi Snær. Allt gekk þetta vel og allir voru sáttir með ferðina enda komu Ísak og félagar heim með brons sem þykir bara nokkuð gott.

Við Daði Steinn eyddum páskunum í Kögurselinu - kappinn varð 7 ára og kellan dundaði sér við að mála risið hjá Ísaki og skellti svo einum Lebron James á kantinn.
 

Flensan kíkti í heimsókn hjá flestum og eru sumir enn að berjast við hana.
Annars er lífið bara körfubolti og fótbolti og ekkert hægt að hafa það betra ;-)

mánudagur, 29. febrúar 2016

Hlaupandi febrúar

Þá er þessi langi febrúar senn á enda, hefðbundinn með körfubolta og afmælisveislu. Logi Snær varð 12 ára 20. febrúar, en afmælisdeginum eyddi hann í KR heimilinu í körfubolta.
Ísak Máni fékk æfingaleyfi í körfunni í byrjun mánaðar og fór svo í aðgerð til að taka teinana úr fætinum 26. febrúar. Núna er allt á uppleið og um leið og hann treystir sér til að taka þátt í æfingum aftur þá má hann það og þegar þetta er ritað þremur dögum eftir aðgerð þá er hann búinn að skella sér á skotæfingu í Seljaskóla.
Daði Steinn sparkar í tuðru í hvaða veðrum sem er og líkar það vel. Hann er nú farinn að fá vini í heimsókn eftir skóla og líkar alltaf betur og betur við allt sem tengist Seljahverfinu.
Ég held áfram að synda og hef lokið við 13,6 km í febrúar og er farin að synda 40 ferðir eða 1km án þess að stoppa.
 

þriðjudagur, 2. febrúar 2016

Lífið er sund

Ég setti mér markmið um að ná að synda 100 km á árinu. Nú er fyrsti mánuðurinn liðinn og synti ég rúma 13 km í janúar. Ég er nokkuð ánægð með það og alltaf varð hin frábæra Breiðholtslaug fyrir valinu. Stundum læt ég hina í sundi pirra mig, einfaldlega af því þeir hefta för mína og stundum fæ ég braut alveg útaf fyrir mig og næ að slaka á og njóta lífsins í botn.

Fyrsti vitnisburðardagurinn hjá Daða Steini var í janúar og stendur hann sig afbragðs vel í alla staði. Hann les 232 atkvæði á mínútu, rúllar upp stærðfræðinni og er með límheila, en hann virðist muna nánast allt sem sagt er við hann. Hann er líka einstaklega passasamur á alla sína hluti og föt - sem betur fer.
Logi Snær fékk líka sinn vitnisburð og stendur sig glimrandi vel líka, les tæp 400 atkvæði á mínútu og stendur sig almennt vel í stærðfræði og íslensku ásamt öðru sem hann gerir.
Ísak Máni heldur sínu striki í Kvennó, vinnur í Hagkaup öðru hverju og er farinn að þjálfa bæði stelpur og stráka í körfuboltanum. Það styttist svo vonandi í að hann geti sjálfur farið að stunda körfuna á fullu, en núna er hann í endurhæfingu hjá sjúkraþjálfara.

laugardagur, 2. janúar 2016

Árið 2015

Árið 2015
Var alveg búin að gleyma hvað gerðist á árinu svo ég fór í gegn um Facebook og tók saman nokkur atriði.
Það má segja að árið 2015 hafi að mestu snúist um íþróttaiðkun drengjanna minna. Í janúar var Ísak Máni á fullu í körfubolta, Logi Snær á fullu í körfubolta og fótbolta og Daði Steinn að æfa fimleika ásamt því að fara í n.k. íþróttaskóla á vegum ÍR á leikskólatíma. Ég fann mér þó tíma á kvöldin til að stunda mitt power jóga.

Í febrúar fór fyrsta tönnin hjá Daða Steini. Ólafur í Frozen varð til í Kögurselinu og var nýttur á búningadögum í Breiðholtsskóla. Logi Snær varð árinu eldri, öskudagur rann upp með söng og gleði og tóku Daði Steinn og Logi Snær virkan þátt í því – enda syngja þeir eins og englar – Frikki Dór hvað?. Körfuboltinn rúllaði með góðum árangri hjá Ísaki Mána, en Logi Snær og félagar voru ekki með á Íslandsmótinu.
 
Mars virðist að mestu hafa snúist um snjó og vond veður. Ég tók eina kommóðu í gegn. Við Logi Snær fórum að sjá Billy Elliot og Daði Steinn varð árinu eldri – loksins orðinn sex ára. Sólmyrkvi og svo má ekki gleyma körfuboltanum en Davíð fylgdi Ísaki Mána og félögum á Scania cup.
Apríl hófst á Scanía hjá feðgunum, en ég og yngri drengirnir áttum góða Páska hér heima með saltkjötsáti, klifurferð og gleði. Ég var lengi búin að leita að skenk í stofuna, fann loks einn sem smellpassaði og gerði hann upp. Daði Steinn fór og söng í Hörpunni með örðum 6 ára börnum í Reykjavík. Svo var það körfuboltinn – undanúrslit – úrslit og íslandsmeistaratitill hjá Ísaki og félögum í 10.flokk sem var klárlega toppurinn í apríl.
 
Maí hófst á einni af fáum Esjuferðum á árinu. Svo var það sveitin sem heillaði, fórum í heimsókn í Kjósina í sveitina hans Markúsar vinar hans Daða Steins. Við Logi Snær tókum svo góðan slurk í sauðburði á Knörr. Þann 21.maí útskrifaðist Daði Steinn formlega úr leikskóla eftir fjögur frábær ár á Fálkaborg með frábæra leikskólakennara. Hann hóf einnig skólagöngu sína í Seljaskóla með því að fara í vorskóla þar. Ísak Máni fékk frábærar viðurkenningar á uppskeruhátíð ÍR í körfunni.
  
Júní hófs á litagleði, en ég og Inga Marín unnum gjafabréf í Color run hlaupið og kláruðum það með gleði. Ísak Máni lauk sinni grunnskólagöngu þegar hann útskrifaðist úr Breiðholtsskóla og fékk inngöngu í Kvennaskólann í Reykjavík. Við fjölskyldan skelltum okkur í frí til Costa Brava á Spáni í tvær góðar vikur. Ísak Máni varð 16 ára. Við skelltum okkur svo til Akureyrar nánast beint eftir heimkomu. Ísak Máni byrjaði að vinna í Hagkaup.
  
Í byrjun júlí tók Logi Snær þátt í N1 mótinu á Akureyri og kom heim með silfur eftir naumt tap á móti Viking frá Færeyjum. Skruppum til Grundó. Fórum í fjallgöngur (Helgafell Mos, Helgafell Hf, Reykjafell, Mosfell og Úlfarsfell ein eða með hinum og þessum göngufélögum) og nutum sumarsins. Daði Steinn mætti á sína fyrstu fótboltaæfingu og ekki aftur snúið. Fórum á Góða stund í Grundó og tókum langþráða gönguferð á Eldborg á heimleiðinni. Mánuðurinn endaði svo á fjölskylduhitting í Bröttuhlíð þar sem allir afkomendur mömmu og pabba hittust.
   
Fyrstu dagarnir í ágúst snérust um Úlfarsfell og málningu. Við máluðum húsið að mestu. Það varð loks af því að ég fór með mömmu og pabba á Móskarðshnúka en það hafði staðið til í maaarga mánuði. Logi Snær tók þátt í Olísmótinu á Selfossi og kom heim með gull, en Ísak Máni kom heim með gifs eftir slæmt fótbrot. Ágústmánuður snerist því mikið um Ísak Mána, enda fékk hann gifs upp að nára og flutti bælið sitt niður í stofu. Hann hóf skólagöngu í Kvennaskólanum sem businn á hækjunum. Pabbi hans sá að mestu um að sinna honum með skutl tengt skólanum. Daði Steinn tók þátt í sínu fyrsta fótboltamóti og kom taplaus heim af því. Logi Snær byrjaði í 6. bekk í Seljaskóla, Daði Steinn byrjaði í 1.bekk í Seljakóla og ég byrjaði í 2.bekk í Breiðholtsskóla.
   
September fólst í því að koma öllu og öllum í góða rútínu. Logi Snær hætti í fótbolta og fór á fullt í körfuna með bæði minnibolta og 7.flokk. Daði Steinn hélt áfram í fótbolta og ég skellti mér á skriðsundsnámskeið. Ísak Máni æfði sig á hækjum og Davíð var duglegur að rúnta með hann um bæinn. Við Daði Steinn skelltum okkur í réttir og smalamennskur þar sem ég fékk að þramma gamlar slóðir í Kjósdalnum.
Október snerist um körfubolta hjá Loga Snæ, hann fór á mót í Borgarnesi og tók þátt í túrneringum á Íslandsmótinu. Hann tók einnig á móti síðbúnum silfurverðlaunum fyrir Reykjavíkurmótið í fótbolta. Daði Steinn kom mér svo skemmtilega á óvart og skellti sér í hrekkjavökupartý hjá Sigrúnu Evu vinkonu sinni.
Í byrjun nóvember losnaði Ísak Máni við gifsið eftir að hafa burðast með gifs í 13 vikur þvílík gleði þó aðrar 13 vikur taki við af því í endurhæfingu. Ísak Máni var glaður með að geta loks tekið strætó og hætt að vera háður foreldrum sínum. Helgarnar fóru að venju í íþróttamót, Logi Snær tók þátt í tveimur túrneringum á Íslandsmótinu og Nettómóti ÍR og Daði Steinn tók þátt í fótboltamótum í Keflavík og Hveragerði. Logi Snær eyðir gríðarlega miklum tíma í íþróttahúsi Seljaskóla og eru aukaæfingarnar að skila sér í frábærum framförum hjá honum.
  
Markmið desembermánaðar var samvera. Við notuðum helgarnar sem mest við máttum saman, fórum í bæjarferð, kíktum í jólaþorpið í Hafnarfirði, fórum á jólamarkað við Elliðavatn, skreyttum piparkökur og nutum útiveru.
  
Eftir skriðsundsnámskeiðið í september hef ég haft sundið sem mína líkamsrækt og jólafríið notaði ég til að synda á meðan aðrir fjölskyldumeðlimir sváfu og telst mér til að ég hafi frá því í september synt vel yfir 50 km og stefni ég á að tvöfalda þá vegalengd hið minnsta árið 2016. Jólin og áramótin voru notaleg og hefðbundin og allir glaðir og sáttir með sitt. 
Árið 2016 verður spennandi með nýjum áskorunum og tækifærum.

Gleðilegt 2016

sunnudagur, 6. október 2013

Smalamennskuyfirlit!

Já þetta verður allt að vera skráð til að maður sé ekki að rugla með hvað maður hefur gert á milli ára.
Ég var núna þriðju helgina í röð að smala. Fyrsta helgin sem var 21.- 22. sept. var farið og smalað Álftadal í gamla Fróðárhrepp og svo fjallið og hlíðin fyrir ofan Geirakot og vestur að Fróðá. 28.- 29. sept var svo réttarhelgin, en veðrið var ekki að leika við okkur og smalaði ég Hamraendafjallið í þoku og snjó - smalaðist vel að sögn viðstaddra enda ekki hægt að sjá annað í þokunni :-) , sunnudagurinn fór svo í að rölta staðarsveitarfjallið frá Kálfá að Mælifelli, en við Inga vorum hálf ruglaðar þarna í þokunni og komum með alveg tvö lömb með okkur niður. Þessi helgi fór svo í að reka inn og sortera sláturlömb, þó laugardagurinn hafi nú byrjað á smá útúrdúr upp á Knarrarfjall til að sækja nokkrar skjátur. Þar fékk Logi Snær að stíga sín fyrstu alvöru smalaskref, en hann fékk að fara með mér niður Egilsskarðið á eftir þremur skjátum, en það er skriða í orðsins fyllstu merkingu og leist honum nú ekki alveg á blikuna þegar við vorum lögð af stað niður, enda sviptivindar líka. Allt hafðist þetta við mis mikla gleði en piltur vildi helst fara með "sínar" kindur alla leið inn í fjárhús þó hinir smalarnir væru ekki komnir. Allt lagaðist þetta með betri tímum en eftir smá kaffipásu fékk hann að rúnta um öll engi með Friðgeiri á fjórhjólinu og það var nú heldur betur lífsreynsla. Hann var svo orðinn nokkuð lunkinn við að draga lömb áður en dagurinn var búinn.
Ekki veit ég hvort smalamennskum er lokið hjá mér þetta haustið - fer eftir veðri og vindum hvort maður skellir sér í vetrarfríinu í smá eftirsmölun.