laugardagur, 31. desember 2016

Árið 2016

Markmiðið var að henda inn örlitlu bloggi um hvern mánuð á árinu, en það entist fram í maí - síðan hefur ekkert verið ritað hér.
Ég held að árið 2016 hafi bara í heildina verið mjög gott ár. Ég kenndi 2.bekk í Breiðholtsskóla þar til sumarfríið hófst, en eftir sumarfrí hófst nýr kafli en þá settist ég á skólabekk sjálf enda hafði ég fengið úthlutuðu launuðu námsleyfi. Ég byrjaði því eftir 14 ára hlé að mæta aftur í gamla góða Kennó í september en þar stunda ég Dipómanám í námi og læsi barna, en geri ráð fyrir að demba mér aftur í kennsluna í haust. Ég fór fyrstu ferð ársins á Úlfarsfellið í mars og þegar þetta er ritað eru þær orðnar 70 - oftast fór ég ein, en oft með mömmu og pabba, nokkrar með Ísaki og svo fengu Jóhanna, Inga, Guðrún, Erla og hinir strákarnir mínir stundum að koma með. Fimm ferðir voru farnar á Esjuna og fór Daði Steinn m.a. sína fyrstu ferð upp að Steini með mér. Helgafell í Hafnarfirði var farið tvisvar, annað skiptið með Jóhönnu og hitt með mömmu, pabba, Loga og Daða. Smalaferðir urðu sjö sem ég get talið sem fjallgöngu og grasa/berjaferðir tvær sem urðu að fjallgöngu með. Hápunkturinn var svo ferð á Hafursfellið með mömmu og pabba, en sú ferð var alveg dásamleg í dásamlegu veðri og væri gaman að gera þetta að árlegum viðburði. Þegar ég byrjaði að labba á Úlfarsfellið var ég ekkert að stefna á einhvern fjölda ferða, en veðrið er búið að vera einstaklega hagstætt í haust og frelsið sem fylgir því að vera í námsleyfi gerir það að verkum að ég get farið þegar mér hentar og í stað þess að borga fyrir kort í líkamsrækt þá hefur þetta og sundið verið mín líkamsrækt. Ég setti mér hins vegar markmið í sundinu fyrir árið, en það var að synda 100km á árinu, það tókst og endaði kílómetrafjöldinn í 132,625km eftir sundferð dagsins. Oftast var farið í Breiðholtslaugina, en nokkrum sinnum í Lágafellslaug og Kópavogslaug til að komast aðeins í kalda pottinn líka.

Drengirnir mínir blómstra í sínu. Ísak Máni er nú hálfnaður með Kvennó og líkar lífið vel, hann stundar körfuboltann af kappi sjálfur, en einnig þjálfar hann stráka í 10.flokki við góðan orðstír. Logi Snær er einnig á kafi í körfuboltanum og stendur sig afar vel þar eins og á öðrum sviðum. Daði Steinn er á fullu í fótbolta og lætur stundum plata sig í að fara á körfuboltaæfingar með Ísaki þegar hann er að þjálfa 3. og 4. bekk. Hann ræktar einnig vel samband sitt við Markús vin sinn sem býr í Hlíðunum, en vinátta þeirra er alveg frábær. Hann er einnig að rúlla upp náminu í 2.bekk og les eins og herforingi. Davíð heldur sínu striki í vinnunni sinni hjá Nathan og Olsen, skipuleggur keppnisferðir hjá drengjunum sínum og reynir að rækta sjálfan sig.
Heilsan hefur verið nokkuð góð hjá öllum í vetur og lítið um veikindi fyrir utan hlaupabóluna hjá Daða Steini sem fékk hana af krafti og varð ansi lasinn.

Engin föst markmið í hreyfingu fyrir 2017 önnur en þau að hafa gaman af því sem ég er að gera og njóta og líða vel af því. Hvað ferðirnar verða margar á fjöll eða fell skiptir ekki máli á meðan mér líður bara vel af þessu - það verður þó stefnt að sama markmiði í sundinu eða 100km, en það er bara til að halda mér við efnið. Að örðu leyti fara næstu mánuðir í lærdóm og í að fylgja drengjunum eftir í sínum íþróttum - hlakka bara til 😏