sunnudagur, 6. október 2013

Smalamennskuyfirlit!

Já þetta verður allt að vera skráð til að maður sé ekki að rugla með hvað maður hefur gert á milli ára.
Ég var núna þriðju helgina í röð að smala. Fyrsta helgin sem var 21.- 22. sept. var farið og smalað Álftadal í gamla Fróðárhrepp og svo fjallið og hlíðin fyrir ofan Geirakot og vestur að Fróðá. 28.- 29. sept var svo réttarhelgin, en veðrið var ekki að leika við okkur og smalaði ég Hamraendafjallið í þoku og snjó - smalaðist vel að sögn viðstaddra enda ekki hægt að sjá annað í þokunni :-) , sunnudagurinn fór svo í að rölta staðarsveitarfjallið frá Kálfá að Mælifelli, en við Inga vorum hálf ruglaðar þarna í þokunni og komum með alveg tvö lömb með okkur niður. Þessi helgi fór svo í að reka inn og sortera sláturlömb, þó laugardagurinn hafi nú byrjað á smá útúrdúr upp á Knarrarfjall til að sækja nokkrar skjátur. Þar fékk Logi Snær að stíga sín fyrstu alvöru smalaskref, en hann fékk að fara með mér niður Egilsskarðið á eftir þremur skjátum, en það er skriða í orðsins fyllstu merkingu og leist honum nú ekki alveg á blikuna þegar við vorum lögð af stað niður, enda sviptivindar líka. Allt hafðist þetta við mis mikla gleði en piltur vildi helst fara með "sínar" kindur alla leið inn í fjárhús þó hinir smalarnir væru ekki komnir. Allt lagaðist þetta með betri tímum en eftir smá kaffipásu fékk hann að rúnta um öll engi með Friðgeiri á fjórhjólinu og það var nú heldur betur lífsreynsla. Hann var svo orðinn nokkuð lunkinn við að draga lömb áður en dagurinn var búinn.
Ekki veit ég hvort smalamennskum er lokið hjá mér þetta haustið - fer eftir veðri og vindum hvort maður skellir sér í vetrarfríinu í smá eftirsmölun.