föstudagur, 6. júlí 2012

Snæfellsjökulshlaupið og fl.

Þegar ég byrjaði í sumarfríi var ég búin að ákveða að stunda Esjuna eins mikið og ég gæti. Það hefur nokkuð vel gengið eftir og er ég búin að draga pabba með í þónokkur skipti og mamma hefur stundum komið með líka - það hvetur mig svoldið áfram að hafa einhvern með í þessa vitleysu. Það blundaði lengi í mér að taka þátt í Snæfellsjökulshlaupinu, var samt ekki alveg viss um að ég væri manneskja í þetta, enda aðeins 22 km og svona eins og ein Esja í hækkun. Þegar veðurspáin var klár og ég búin að ná takmarkinu að komast upp að steini á 50 mín. þá skráði ég mig og ekki aftur snúið. Við brunuðum vestur á föstudegi og hlaupið var á laugardegi 30. júní. Ég fékk mikla hvatningu frá fjölskyldu og mér leið nokkuð vel með þetta allt saman þrátt fyrir aragrúa af einhverjum hlaupagúrúum við rásmarkið. Strax í upphafi var ég með þeim síðustu en þó var alltaf hópur stutt fyrir framan mig, en ég passaði mig að vera ekki að sprengja mig í upphafi og dólaði þetta á rólegu skokki þar til kom að Stapafellsbrekkunni, en hana er bara ekki hægt að hlaupa, eftir það var þetta skokk, ganga, skokk, ganga og allt í góðu. Gott að vita af powerade á næsta leyti, en það það voru fjórar drykkjarstöðvar á leiðinni. 5 km snjókaflinn var hins vegar ansi erfiður - á tímabili vissi ég ekki hvort ég myndi hafa þetta af, upp í móti í snjó sem maður sökk upp að ökkla - ekki spennandi. Á þessum kafla náði ein af þeim sex sem voru á eftir mér mér - hún ætlaði sér einfaldlega ekki að hlaupa ein! Ég hafði bara gaman af að hafa félagsskap og því skokkuðum við þetta í gegn saman þar til á endasprettinum þá skildi ég hana eftir, en henni fannst mun erfiðara að hlaupa niður en mér, mér fannst það bara frekar þægilegt, enda leið mér vel þegar í mark var komið og ég hafði ekkert yfirkeyrt mig. Strákarnir tóku vel á móti mér í marki:
Ísak Máni var farinn á fótboltaleik í Ólafsvík þegar myndatakan fór fram. Ég er hrikalega montin af sjálfri mér, en lengsta sem ég hafði hlaupið var 11 km, sem ég tvöfaldaði þarna á tímanum 2klst og 57 mín. Nokkuð fersk bara daginn eftir og engar harðsperrur, skellti mér svo bara á Esjuna á mánudeginum. Svo er bara að vera komin í örlítið betra form að ári. Ísak Máni og Logi Snær hafa svo bara þurft að sjá um sig sjálfir á meðan ég stunda mína Esju - eða þeir hafa vaknað og fengið sér að borða, en sólarhringurinn er orðinn eitthvað brenglaður hjá þessum elskum.
Tíu Esjuferðir komnar síðan 13.júní :-)

Í gær var svo hinn árlegi fjölskylduhittingur í Bröttuhlíð. Af því tilefni var smellt af mynd af öllum barnabörnum mömmu og pabba, en þau eru 11 talsins:
og ég er svo rík að eiga þrjá yndislega drengi á þessari mynd.

Ræktin:
laugardagur 30. júní Snæfellsjökulshlaupið 22 km á 2klst og 57 mín.
mánudagur 2. júlí Esjan 66 mín. P
miðvikudagur 4.júlí Esjan 65 mín. P og 3 km kraftganga
föstudagur 6. júlí Esjan 61 mín. P
laugardagur 7. júlí 11. ferðin á Esjuna á 60 mín. P Hrikalega stolt af pabba sem hefur bætt sig um heilar 10 mín. síðan hann fór að stunda þetta með mér. Líka hrikalega stolt af mömmu sem fer með okkur og fer eins langt og hún getur í hvert skipti - oft upp að læk.
mánudagur 9. júlí Esjan á 49 mín.
Miðvikudagur 11. júlí Esjan á 70 mín.P/I

3 ummæli:

  1. Takk elsku stelpan mín að taka mig með þó ég sjái á eftir ykkur reykspóla upp Esjuna :o

    SvaraEyða
  2. Flott hjá þér Sigga. Að hlaupa í nær þrjá tíma er mikið afrek.

    SvaraEyða