laugardagur, 28. apríl 2012

Innivera og útivera

Dagarnir líða áfram og áður en maður veit af verður komið sumarfrí. Nóg að gera hjá öllum á lokasprettinum, uppskeruhátíð í körfunni 12. maí, tónleikar hjá Ísaki Mána einnig þá, hann er einnig að fara að taka grunnpróf í píanóleik um miðjan maí. Logi Snær verður með fimleikasýningu 17. maí og svo verða einhver próf í skólanum hjá drengjunum. Ætlunin hjá mér er að reyna að komast vestur fljótlega og sá gulrótum í garðinn minn góða. Daði Steinn vill helst vera úti að leika þegar hann hefur lokið leikskóladeginum og held ég að það væri gott fyrir hann að komast í Baulumýri þar sem hann getur leikið frjáls úti í náttúrunni. Rigning í dag og því ákveðið að taka inniveruna á þetta fyrri hluta dags - ákveðið var því að skella sér í íþróttahúsið í skólanum og láta alla rasa út þar í c.a. tvo tíma. Við Daði Steinn tókum samt útiveruna á þetta seinni partinn á meðan Ísak Máni eldaði þennan fína fiskrétt í kvöldmatinn. Hann eldaði þetta í heimilisfræði og heimaverkefnið hans var að elda þetta fyrir fjölskylduna, hann stóð sig vel og voru allir fjölskyldumeðlimir nokkuð sáttir við matinn - gerist ekki oft! Stefnir í ágætis veður á morgun og þá verður fjölskyldan örugglega drifin út til að fá útrás.

Ræktin:
Laugardagur 21. apríl: Cross fit æfing hjá Annie Mist ca. 60 mín.
mánudagur 23. apríl: Tabata 60 mín. Hlaup 2,3km. Kraftganga í 70 mín.
þriðjudagur 24 apríl: frí
miðvikudagur 25. apríl: TNT 60 mín.
Fimmtudagur 26. apríl: 3x400m sprettir á 12,5, 1x500m sprettur á 13,5. Róður, Stigvél(10mín) + magi+armb. =60 mín.
Föstudagur 27. apríl: Tabata 60 mín.
Laugardagur 28. apríl: Íþróttahúsið í 2 klst.

föstudagur, 20. apríl 2012

Gleðilegt sumar..

..og takk fyrir veturinn. Hóf sumardaginn fyrsta á morgunskokki um Elliðaárdalinn í aldeilis fallegu og björtu veðri. Svo lá leið mín út á leikskóla þar sem sumarhátíð foreldrafélagsins var haldin. Við fengum Krakkahesta til að koma og teyma undir börnunum og vakti það mikla lukku. Daði Steinn og Logi Snær fóru sitt hvora ferðina, Logi á Tígul og Daði á Mola. Svo voru grillaðar pylsur ofan í mannskapinn áður en haldið var heim.
Davíð fór með eldri drengina tvo á tónleika í Hörpunni eftir kaffi, en við Daði lögðum okkur aðeins áður en við héldum út í góða veðrið og skemmtum okkur vel í tvo klukkutíma við leik - þá var ég búin að fá nóg og vildi fara inn, annað en sumir :-/
S.s. góð byrjun á vonandi góðu sumri.

Ræktin:
Mánudagur 16. apríl Tabata 60 mín, hlaup úti ca 5km og kraftganga í 60 mín.
Þriðjudagur 17. apríl frí
miðvikudagur 18. apríl TNT 60 mín
fimmtudagur 19 apríl 8.4 km á 49 mín. úti
föstudagur 20. apríl Tabata 60mín.

mánudagur, 16. apríl 2012

Árinu eldri...

Jæja árin halda áfram að færast yfir þó svo maður yngist bara í anda. Það var að sjálfsögðu stjanað við mann í gær - allavega keypt kaka og engin venjuleg kaka, heldur ekta frönsk súkkulaðikaka frá Jóa Fel, mmmm hún var svooo góð.
Ég skrapp skottúr í Baulumýri á laugardag, fór með mömmu og pabba en þau voru að fara með fulla kerru af eldivið sem þurfti að losa inn í eldiviðarskúr, það var bara dásamlegt að taka smá rúnt án alls áreitis frá börnum, enda ekkert sérstakt um að vera hjá þeim þessa helgi. Sumardagurinn fyrsti nálgast óðfluga en þá er fimleikasýning hjá Loga Snæ, sumarhátíð hjá Daða Steini og einhverjir tónleikar sem Ísak Máni, Logi Snær og Davíð áætla að skella sér á. Ég hefði nú líka alveg viljað taka þátt í fyrsta sumar Powerade hlaupinu sem er þennan dag líka, en ég sé ekki alveg fram á að það rúmist í tímaplaninu - bara gott að hafa nóg að gera.

Ræktin
Mánudagur 9. apríl frí - eða keyrsla frá Suðureyri
Þriðjudagur 10. apríl 5 km á bretti og ýmsar styrktaræfingar = 60 mín.
miðvikudagur 11. apríl TNT 60 mín
fimmtudagur 12. apríl 1 km á hraða 11 og 4x 400m sprettir á 12,5. Tabataæfingar með lóðum.
föstudagur 13. apríl Tabata 60 mín.

mánudagur, 9. apríl 2012

Páskar á Suðureyri 2012

Páskafríið langt komið og erum við búin að vera í góðu yfirlæti á Suðureyri síðan á miðvikudag, en þann dag tókum við í að rúnta í sveitina c.a. 5 tímar. Rigningarsuddi mest allan tímann, en samt alveg hægt að vera úti með drengina að leika. Ferming hjá Daníeli Viðari í gær og var það mjög flott og strákurinn mjög flottur. Veðrið var farið að versna í gærkvöld, farið að snjóa og svoldið hvasst. Þegar við vöknuðum svo í morgun leist okkur nú ekki alveg á blikuna, héldum að við hefðum lent á annarri plánetu, allt hvítt og sæmilegir skaflar höfðu myndast hér og hvar. Öllum var því skellt í morgunmat, dótinu hent út í bíl og brunað af stað um kl. 9:30. Mér leist nú ekki alveg á byrjunina, en það var alveg blint og snjór á veginum inn Súgandafjörðinn - það var gott að komast í göngin :-) Færð og veður var svo þokkalegt fram að Steingrímsfjarðarheiði þó ferðahraðinn væri ekki gríðarlegur hjá okkur. Það virtust ekki margir hafa farið heiðina þegar við fórum hana, en skyggnið var ekkert á tímabilum, en annars mjög lítið, allt hafðist þetta og var ákveðið að hafa matarstopp í Búðardal, enda flestir farnir að halda verulega í sér :-/ Það virðist eitthvað hafa gengið meira á á eftir okkur því við fréttum það í Búðardal að slatti af bílum hefðu farið útaf og einhverjir fest sig (í eina skaflinum á heiðinni). Við vorum því nokkuð fegin því að hafa farið af stað á undan öllum öðrum - held að við höfum ekki mætt einum einast bíl á heiðinni sjálfri. Þegar við keyrðum svo út Dalina og yfir Bröttubrekku var eins og við værum komin í annað land, þvílík voru veðurskiptin. Úr blindhríð yfir í glampandi sól og græn tún.
Ferðin tók okkur aðeins rúma 7 klukkutíma með c.a hálftíma stoppi í Búðardal  - það er allavega gott að vera komin heim.
Frábær páskahelgi að baki og gaman að skella sér á Suðureyri, enda vel gert við mann.
Elsku Jóhanna, Elli, Daníel og Aron Kári kærar þakkir fyrir okkur.

Ræktin:
Mánudagur 2.apríl Tabata 60 mín.
Þriðjudagur 3. apríl Hot Balance 60 mín.
Miðvikudagur 4. apríl TNT 60 mín.
Fimmtudagur 5. apríl Fitness box á Suðureyri 50 mín.
Föstudagur 6. apríl 5km í sjávarilm á Suðureyri
Laugardagur 7. apríl frí
Sunnudagur 8. apríl frí

mánudagur, 2. apríl 2012

Páskafrí??

Tæknilega séð á ég að vera komin í páskafrí, en til að koma ekki beint í kennslu eftir páska óundirbúin hef ég tekið þá ákvörðun að vinna í páskafríinu og skelli mér því í vinnuna í dag og set stóru strákana mína í íþróttahúsið að djöflast á meðan - góður díll sem allir eru sáttir við.

Það var tvöföld afmælisveisla um helgina í Stórakrika, Daði og Hekla héldu þriggja ára veisluna sína saman.Ísak Máni var einnig að keppa í körfubolta um helgina, úslitatúrnering í 7.flokki, ekki gekk flokknum sem skildi, en Ísak Máni var að standa sig ljómandi vel og setti niður slatta af körfum.


Ræktin:
Mánudagur 26. mars Tabata 60 mín
Þriðjudagur 27.mars Frí
Miðvikudagur 28. mars TNT 60 mín
Fimmtudagur 29. mars 5km/30mín. Tabata 35 mín.
Föstudagur 30 mars Tabata 60 mín.