fimmtudagur, 29. desember 2011

Snjórinn

Það snjóar og snjóar þessa dagana, sjaldan verið svona síðan ég flutti til Reykjavíkur. Man reyndar að það var ansi mikill snjór þegar ég var heima með Ísak Mána í fæðingarorlofi 1999-2000, var oft erfitt að komast um hverfið með barnavagninn. Spuning um að vera ekkert að fara meira út í umferðina í dag (fór að sjálfsögðu í ræktina í morgun).
Við höfum reynt að fara út í snjóinn á hverjum degi, oftar en ekki hafa það verið ég, Logi Snær og Daði Steinn, en Davíð er búinn að vera í vinnunni og Ísak Máni meira spenntur fyrir að vera með vinum sínum. Spurning hvort Daði Steinn ráði við snjóinn eins og hann er núna.
 Alsælir í sleðaferð, búnir að fara nokkrar ferðir í hverfisbrekkunni og á leið heim.

 Eitt grýlukerti fannst í kastalanum og var það borðað í mesta bróðerni.

Á jóladag fórum við eins og venjulega í jólahangikjöt í Bröttuhlíð, þar hitti Daði Steinn hana Sollu sína og síðan hefur hann þóst vera Íþróttaálfurinn. Þau eru góð saman :-)

Ræktin:
Mánudagur 26.des. Body pump tími
Þriðjudagur 27. des. Brennsla, 20 mín á stigvél, 20 mín á orbí, magi, bak og planki.
Miðvikudagur 28. des. Bretti 5 km á 30 mín. magi, bak, planki.
Fimmtudagur 29. des. Tabata tími + hot kjarni tími. Mæli með Tabata.
Svo er bara spurning hvort hægt verður að hlaupa á laugardaginn, stefnan er sett á gamlárshlaup ÍR.

föstudagur, 23. desember 2011

Jólin, jólin......

....eru alveg að koma. Ýmislegt höfum við aðhafst í aðraganda jólanna.
Við höfum notið útiverunnar í snjónum eins og kostur er.
 Logi Snær og Daði Steinn fóru á hverfishólinn að renna sér á sleða.
 Hérna fyrir utan hjá okkur er kominn þessi líka fíni köngulóavefur sem er alveg hægt að notast við.
 Í vinnunni hjá Davíð var boðið upp á piparkökuhúsaskreytingar fyrir alla fjölskylduna. Logi Snær og Ísak Máni unnu þetta fagmannlega eins og sjá má.
 Helgileikur 7. bekkinga var sýndur á öllum þremur jólaskemmtunum skólans og var Ísak Máni píanóleikari sýningarinnar og sló vart feilnótu - stóð sig með mikilli prýði og var móðirin afar stolt þegar samstarfsfólk var að hæla drengnum við mig.
Logi Snær gekk galvaskur í kring um jólatréð í skólanum og hengdi sinn þvott á fullu með Andra Frey sér við hlið. Grýla og fleiri skrýtnar verur kíktu í heimsókn við mikla kátínu.

Jólatréð er nú komið upp og allt að verða nokkuð klárt fyrir jólin.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla.

Ræktin:
Þriðjud. 20. Hot toning tími
miðv.d. 21. Hlaup á bretti 5km á 30 mín.
föstud. 23. Hlaup á bretti 10 km á 60 mín. - geri það ekki aftur nema í neyð.
laugard. 24. Body pump tími.

laugardagur, 17. desember 2011

Vika í jólin

Jólabaksturinn er hafinn og líklega bara lokið líka. Fjórar sortir í dag og allir frekar sáttir. Flestar ef ekki allar jólagjafir komnar í hús hjá mér að ég held - kemur í ljós þegar búið er að pakka öllu inn hvort einhver hefur orðið eftir.
Skelltum okkur meira að segja í Fjarðarkaup í dag til að versla jólasteikina - hún var góð hjá þeim í fyrra og því þá að taka einhverja sénsa núna. Ég fór hins vegar alveg yfir strikið í matarinnkaupunum í dag. Þar sem það er steik í matinn á morgun ákváðum við að hafa fisk í dag, steiktur fiskur í raspi varð fyrir valinu (Logi Snær elskar hann). Þegar ég hins vegar ætla að fara að elda fiskinn minn í kvöld álpast ég til að lesa á umbúðirnar og stendur þá ekki svínasíða að hætti þjóðverja! Ég hélt ég væri gengin af göflunum. Þegar ég svo tilkynnti Loga Snæ þetta sagði hann bara: Ég ætla ekki að borða - kjöt fer helst ekki inn fyrir hans varir. Það voru því eldaðar svínasíður með raspi fyrir rúmlega helming fjölskyldunnar og hinn hlutinn fékk pasta - sem er í uppáhaldi. Spuring hvort að jólastressið sé að gera útaf við mann eða hvað.
Strákarnir eru bara hressir. Við skelltum okkur öll út í snjóinn í dag og það finnst þeim ekki leiðinlegt, sleði, snjóbretti og skóflur - það má notast við það í þessari veðráttu. Logi Snær er samt ekki á fullhlöðnu batteríi ennþá, hefur lítið úthald en er að reyna sitt besta.

Ræktin:
Sunnudagur: Body pump tími
Þriðjudagur: Hot toning tími
Miðvikudagur: Hlaup 5km á 32 mín. á bretti.
Fimmtudagur: Body pump tími
Laugardagur: 10 km skokk með sprettum 80 mín. Var með tilvonandi meðskokkara í þjálfun.

föstudagur, 9. desember 2011

Powerade hlaupið

Mér tókst það! Ég skellti mér í Powerade hlaupið með henni Ingu vinkonu minni í næstu blokk. 6-7stiga frost og örlítill vindur. Færðin ekki upp á það besta, sumstaðar leið manni eins og maður færi tvö skref áfram og eitt afturábak.  Planið var að hlaupa þessa 10 km á undir 70 mín. í þessu veðri og færð og hafa gaman af þessu. Það tókst og fengum við báðar skráðann tímann 63:06 sem við vorum bara hæst ánægðar með. Ég var þar að auki búin að mæta í ræktina kl. 6 um morguninn í Body pump tíma. Það var því ekki laust við að ég yrði þess vör í morgun að ég hefði verið að gera sitthvað í gær. Bara gaman að þessu.
Næsta hlaup í janúar og stefnan að sjálfsögðu sett á það.

Jæja, verð að fara að undirbúa Daða Stein undir nefkirtlatökuna.....

miðvikudagur, 7. desember 2011

Þegar piparkökur....

...bakast kökur....
Við Logi Snær skelltum í piparkökudeig í gærkvöldi svo við gætum bakað piparkökur eftir skóla í dag. Ég var með Daða Stein heima í dag og því gátum við bara byrjað strax og Logi Snær var búinn í skólanum. Ísak Máni var ekki kominn heim þegar myndasmiðurinn var á staðnum, en hann fékk samt einn þriðja af deginu til að vinna með.Daði Steinn var í lokin orðinn mest spenntur fyrir að sáldra hveiti um allt, en allt gekk þetta ljómandi vel og allir sáttir - líka mamman sem þurfti að skúra yfir eldhúsgólfið eftir þetta.
Svo er bara spurning hvort við höfum okkur í það að skreyta eitthvað af þessu áður en það klárast.

Logi Snær hefur það þokkalegt og er farinn að vera í skólanum. Daði Steinn fær hins vegar helst ekki að fara út í kuldann og er pústaður í bak og fyrir svo hann verði góður á föstudag og komist í nefkirtlaaðgerðina. Hann er hins vegar fullur af orku og veit ekki alveg hvað hann á að gera af sér.
Unglingurinn er bara unglingur með öllu því sem því fylgir.

Ræktin gengur ágætlega, prófaði nýjan tíma í gærmorgun - reebok hot toning. Mjög rólegar en nokkuð krefjandi æfingar í 35 gráðu heitum sal, var samt ekki alveg að höndla hitann á tímabili. Svitnaði vel af þessu. Tók svo 5km á rúmum hálftíma á brettinu í morgun - aðeins auðveldara heldur en síðast. Body pump tími 6:10 í fyrramálið svo það er eins gott að fara að koma sér í bælið.

laugardagur, 3. desember 2011

Af mér og mínum!

Ýmislegt gengur á hérna í Eyjabakkanum. Logi Snær er búinn að vera slappur síðustu vikur og eftir tvær læknisheimsóknir, einn sýklalyfjaskammt og blóðprufur fékkst niðurstaða - hann er með veirusýkingu sem venjulega kallast einkirningssótt. Frekar leiðinleg veira sem veldur því að hann verður mjög þreyttur og úthaldslítill og til að bæta gráu ofan á svart þá varð hann þakinn í útbrotum á 90% af kroppnum. En allt er þetta nú á uppleið og Logi Snær væntanlega á leið í skólann á mánudag. Daði Steinn er stíflaður af kvefi og maður krossleggur bara fingur um að hann hangi næstu daga, en hann er á leið í nefkirtlatöku á föstudaginn eftir viku. Ég lét loks verða að því að panta tíma hjá háls- nef- og eyrnalækni og hann var fljótur að taka ákvörðun um að láta fjarlægja þetta. Hann verður hins vegar að hafa hálskirtlana í rúmlega ár enn.
Ísak Máni er hins vegar bara í góðum gír í því sem hann er að gera - körfubolti, píanó og félagslífið.
Ég er að reyna að rækta líkama og sál og fór 3x kl. 6 í ræktina í  vikunni. Á þriðjudag og fimmtudag fór ég í  body pump tíma þar sem maður er aðallega að lyfta og styrkja miðjuna. Á miðvikudag fór ég á brettið og tók einhverja rúma 6 km. en ég verð að segja að það er drep leiðinlegt að hlaupa á þessum brettum. Í morgun lét ég mig hafa það að fara út í frostið og taka 9,2 km á 59 mín. ansi ánægð með það miðað við að færið var alls ekki gott alls staðar.
Nóg af okkur í bili.

mánudagur, 28. nóvember 2011

Jólaballið

Jæja þá koma hérna tvær myndir frá jólaskemmtuninni á laugardag.  Með þeim bræðrum á myndinni er hún Una Guðríður bekkjarsystir hans Loga.

 Sumir voru svo orðnir frekar lúnir í lokin og því gott að vera bara í mömmufangi.

Ég skellti mér í ræktina í gærmorgun. Flott stöð með sem minnstu tilstandi. Var þó frekar erfitt að hlaupa svona innandyra og hafa ekki ferska loftið og ég verð nú að segja að tíminn líður hraðar úti í náttúrunni heldur en á hlaupabrettinu. Komst einhverja 6 km og er stefnan sett á að reyna að komast aftur á morgun.

laugardagur, 26. nóvember 2011

Meira af líkamsrækt

Tók ákvörðun áðan um að kaupa mér kort í líkamsrækt. Hef ekki átt kort á líkamsræktarstöð í einhver ár. Var mikið búin að velta því fyrir mér að fara í World Class sem er hérna tiltölulega nálægt - en var ekki alveg að tíma 7000 kalli í eitthvað sem ég væri kanski ekki alveg viss um - því var ákveðið að taka það ódýrasta og sem er heldur ekki svo langt frá. Nýja Reebok stöðin varð fyrir valinu og er stefnt á að taka prufu á þetta á morgun, og í stað þess að fara út að hlaupa í snjónum og kuldanum verður hlaupið á hlaupabretti í morgunsárið.
Það veitir heldur ekki af að hreyfa sig svoldið núna eftir allt sykurát síðustu daga. Byrjaði allt í afmæli hjá Hallsteini og Hafrúnu á miðvikudaginn - þvílíkar kaloríubombur sem maður gúffaði í sig þar. Í gærkvöldi var ég í jólahlaðborði í heimahúsi og voru engar smá kræsingar þar á borðum. Í dag var svo jólaball hjá Leikskólanum og nánast bara smákökur á boðstólnum þar og á morgun er svo afmæliskaffi hjá Guðrúnu sem varð 40 ára í dag.
Jólaballið var skemmtilegt, Daði Steinn var alveg til í að dansa með Loga Snæ í kring um jólatréð svona framan af, hann var heldur ekkert hræddur við sveinana sem voru ansi skemmtilegir í þetta sinn, hann fékk meira að segja að smakka skyr hjá honum Skyrgámi, sem hann hafði tekið með sér í stórri álfötu.
Einhverjar myndir voru teknar á jólaballinu, en þær eru ekki komnar inn í tölvuna svo þær koma bara inn síðar.
þangað til næst..........

miðvikudagur, 23. nóvember 2011

Hlaupin mín

 Er búin að vera að taka mig á í hreyfingu undanfarið. Það kom til af því að ein vinkona mín sem ég fór stundum út að skokka með ákvað að skella sér í Powerade hlauparöðina. Hún er s.s. búin að fara tvisvar, en þetta hlaup er alltaf anna fimmtudag í mánuði, en ég er ekki enn búin að fara þrátt fyrir pressu frá henni. Powerade hlaupið er s.s. 10 km hlaup í Elliðaárdalnum í myrkri og hvaða veðri sem er. Stefnan er sett á 8. des. og var planið að vera búin að hlaupa mig í gang fyrir þann tíma. Hérna á blogginu munu því væntanlega vera yfirlit yfir hlaupin mín svo ég geti haldið utan um þetta.
Logi Snær búinn að vera lasinn síðustu daga og fékk að fara í Mosó í dag, en honum finnst nú ekki leiðinlegt að fá t.d. að fara í smíðakompuna með afa sínum að dunda sér.
Hérna kemur svo myndin af karlinum mínum sem ég ætlaði að hafa með í síðasta blogginu á gamla blogginu.


Síðustu hlaup:
sun. 13. nóv. 10 km á 63 mín.
mán. 14.nóv. ganga c.a. 5 km.
mið. 16. nóv. 5,5 km á 35 mín.
fös. 18. nóv. 5,5 km á 29 mín.
sun. 20. nóv. 10 km á 61 mín. + 1 km í upphitun og niðurskokk.
Mið. 23.nóv. 5,5 km á 30 mín.

þriðjudagur, 22. nóvember 2011

Nýtt blogg

Þá hefst nýr kafli í bloggsögu minni og spurning hvort ég verði þá duglegri að blogga í nýju umhverfi.