mánudagur, 28. nóvember 2011

Jólaballið

Jæja þá koma hérna tvær myndir frá jólaskemmtuninni á laugardag.  Með þeim bræðrum á myndinni er hún Una Guðríður bekkjarsystir hans Loga.

 Sumir voru svo orðnir frekar lúnir í lokin og því gott að vera bara í mömmufangi.

Ég skellti mér í ræktina í gærmorgun. Flott stöð með sem minnstu tilstandi. Var þó frekar erfitt að hlaupa svona innandyra og hafa ekki ferska loftið og ég verð nú að segja að tíminn líður hraðar úti í náttúrunni heldur en á hlaupabrettinu. Komst einhverja 6 km og er stefnan sett á að reyna að komast aftur á morgun.

laugardagur, 26. nóvember 2011

Meira af líkamsrækt

Tók ákvörðun áðan um að kaupa mér kort í líkamsrækt. Hef ekki átt kort á líkamsræktarstöð í einhver ár. Var mikið búin að velta því fyrir mér að fara í World Class sem er hérna tiltölulega nálægt - en var ekki alveg að tíma 7000 kalli í eitthvað sem ég væri kanski ekki alveg viss um - því var ákveðið að taka það ódýrasta og sem er heldur ekki svo langt frá. Nýja Reebok stöðin varð fyrir valinu og er stefnt á að taka prufu á þetta á morgun, og í stað þess að fara út að hlaupa í snjónum og kuldanum verður hlaupið á hlaupabretti í morgunsárið.
Það veitir heldur ekki af að hreyfa sig svoldið núna eftir allt sykurát síðustu daga. Byrjaði allt í afmæli hjá Hallsteini og Hafrúnu á miðvikudaginn - þvílíkar kaloríubombur sem maður gúffaði í sig þar. Í gærkvöldi var ég í jólahlaðborði í heimahúsi og voru engar smá kræsingar þar á borðum. Í dag var svo jólaball hjá Leikskólanum og nánast bara smákökur á boðstólnum þar og á morgun er svo afmæliskaffi hjá Guðrúnu sem varð 40 ára í dag.
Jólaballið var skemmtilegt, Daði Steinn var alveg til í að dansa með Loga Snæ í kring um jólatréð svona framan af, hann var heldur ekkert hræddur við sveinana sem voru ansi skemmtilegir í þetta sinn, hann fékk meira að segja að smakka skyr hjá honum Skyrgámi, sem hann hafði tekið með sér í stórri álfötu.
Einhverjar myndir voru teknar á jólaballinu, en þær eru ekki komnar inn í tölvuna svo þær koma bara inn síðar.
þangað til næst..........

miðvikudagur, 23. nóvember 2011

Hlaupin mín

 Er búin að vera að taka mig á í hreyfingu undanfarið. Það kom til af því að ein vinkona mín sem ég fór stundum út að skokka með ákvað að skella sér í Powerade hlauparöðina. Hún er s.s. búin að fara tvisvar, en þetta hlaup er alltaf anna fimmtudag í mánuði, en ég er ekki enn búin að fara þrátt fyrir pressu frá henni. Powerade hlaupið er s.s. 10 km hlaup í Elliðaárdalnum í myrkri og hvaða veðri sem er. Stefnan er sett á 8. des. og var planið að vera búin að hlaupa mig í gang fyrir þann tíma. Hérna á blogginu munu því væntanlega vera yfirlit yfir hlaupin mín svo ég geti haldið utan um þetta.
Logi Snær búinn að vera lasinn síðustu daga og fékk að fara í Mosó í dag, en honum finnst nú ekki leiðinlegt að fá t.d. að fara í smíðakompuna með afa sínum að dunda sér.
Hérna kemur svo myndin af karlinum mínum sem ég ætlaði að hafa með í síðasta blogginu á gamla blogginu.


Síðustu hlaup:
sun. 13. nóv. 10 km á 63 mín.
mán. 14.nóv. ganga c.a. 5 km.
mið. 16. nóv. 5,5 km á 35 mín.
fös. 18. nóv. 5,5 km á 29 mín.
sun. 20. nóv. 10 km á 61 mín. + 1 km í upphitun og niðurskokk.
Mið. 23.nóv. 5,5 km á 30 mín.

þriðjudagur, 22. nóvember 2011

Nýtt blogg

Þá hefst nýr kafli í bloggsögu minni og spurning hvort ég verði þá duglegri að blogga í nýju umhverfi.