sunnudagur, 26. ágúst 2012

Vinnan, Rvk-maraþon og ræktin!

Langt síðan maður nennti að setjast niður og blogga!
Vinnan byrjuð á fullum krafti og nemendur mínir mæta í kennslu á mánudag - verður spennandi að sjá hvernig foreldrum gengur að skilja þá við sig - en ég er að taka við 6 ára nemendum að hefja sína skólagöngu. Fékk alla í viðtöl í síðustu viku, en nú hefst s.s. alvaran á fullu.

Reykjavíkurmaraþonið (10 km) var á sínum stað 18. ágúst í dásamlegu veðri með nýmalbikuðum götum sem gerði það að verkum að það var varla hægt að anda á meðan maður hljóp þá kafla. Ég var samt sem áður mjög sátt við tímann minn 55:40 en eina markmiðið var að vera á undir 60 og líða vel eftir hlaupið.

Eftir sturtu og góðan hádegisverð brunaði ég svo í Baulumýri ásamt Daða Steini, Ingu og Heklu Björk, en Logi Snær hafði verið þar í vist alla vikuna hjá ömmu sinni, afa sínum og Hafrúnu Höllu. Þau skemmtu sér mikið og vel við leik og ýmsar ferðir. Við náðum að týna slatta af berjum og taka upp gulrætur til að taka með heim. Einhverjar myndir voru teknar þarna en ég hef ekki enn komið þeim í tölvuna svo þær koma bara seinna.

Daði Steinn byrjaði á Ugludeild núna í ágúst, en þar eru 3 - 5 ára börn, hann er alsæll með þetta enda í góðum höndum þarna. Ísak Máni byrjaði í unglingadeild og er kátur og glaður með það. Logi Snær er kominn í 3. bekk og líkar vel.

Ræktin:
laugardagur 18. ágúst 10 km á 55:40 mín.
Mánudagur 20. ágúst 1,5 klst kraftganga í Elliðaárdalnum
Þriðjudagur 21. ágúst 1,5 klst kraftganga í Elliðaárdalnum
Föstudagur 24. ágúst Tabata 55 mín.
Laugardagur 25.ágúst Esjan á 63 mín. P/G/M
Mánudagur 27. ágúst Tabata 60 mín
Miðvikudagur 29. ágúst Tabata 60 mín
Föstudagur 31. ágúst Tabata 60 mín.
Miðvikudagur 5. sept. Tabata 60 mín.
Föstudagur 7. sept. Tabata 60 mín.
Laugardagur 8. sept. 7,5 km á 40-45 mín.

miðvikudagur, 8. ágúst 2012

Baulumýri og fl.

Síðustu dagar sumarfrísins að renna sitt skeið, búið að vera alveg dásamlegt sumar. Fórum fyrir viku síðan í Baulumýri og áttum góða fimm daga þar. Ég týndi mikið af aðalbláberjum og nú á ég dágóðar byrgðir til að nota út á hafragrautinn á morgnanna. Þó ég eyddi nokkrum klukkutímum á dag í berjatínslu þá var ýmislegt annað brallað líka. Við fórum niður á fjöru og drengirnir sulluðu í sjónum og ósnum í blíðskapar veðri:




Trampolínið var mikið notað ásamt körfunni á pallinum. Ísak Máni og Logi Snær hoppuðu í Hamraendalækinn og léku sér í læknum. Ég náði strákunum einu sinni með mér upp í hlíð í berjamó og svo tókum við túristarúnt út á Arnarstapa og Hellnar. Ég, Ísak og Logi tókum þetta svo alla leið og röltum frá Hellnum yfir á Arnarstapa og strákarnir voru heillaðir af ströndinni:




Eftir sumarbústaðaferðina höfum við dundað okkur hérna heima, farið í sund og leikið við Heklu Björk. Einnig fengum við gott fólk í grillmat í gær, enda ekki seinna vænna þar sem Gulla og Rúnar Atli flugu á vit Afríkunnar í dag. Lífið fer að komast í fastar skorður, en búið er að snúa sólarhringnum á réttan kjöl hjá Daða Steini en hann fer í leikskólann á morgun og Davíð í vinnuna. Ég mæti svo til vinnu á mánudag.

Ræktin:
Nokkrar ferðir upp í hlíð að tína ber og ein ferð á fjöruna.
5. ágúst Hressileg ganga upp langageirann.
6. ágúst Esjan á 62 mín. Steinar Ingi á bakinu stóran hluta leiðarinnar. (með pabba og Guðrúnu)
8. ágúst 7,4 km skemmtiskokk með Ingu á 55 mín.
9. ágúst Esjan á 50 mín. Kraftganga stóran hring í kring um Rauðavatn.
10. ágúst Esjan á 59 mín. með pabba og mamma fór með okkur upp að brú og rölti svo á eftir okkur upp að læk - þetta eru bara snillingar!
12. ágúst Esjan á 61 mín. með pabba + 10km skokk með Ingu og Guðrúnu á 73 mín.