Árið 2015
Var alveg búin að gleyma hvað gerðist á árinu svo ég fór í
gegn um Facebook og tók saman nokkur atriði.
Það má segja að árið 2015 hafi að mestu snúist um
íþróttaiðkun drengjanna minna. Í janúar var Ísak Máni á fullu í körfubolta,
Logi Snær á fullu í körfubolta og fótbolta og Daði Steinn að æfa fimleika ásamt
því að fara í n.k. íþróttaskóla á vegum ÍR á leikskólatíma. Ég fann mér þó tíma
á kvöldin til að stunda mitt power jóga.
Í febrúar fór fyrsta tönnin hjá Daða Steini. Ólafur í Frozen
varð til í Kögurselinu og var nýttur á búningadögum í Breiðholtsskóla. Logi
Snær varð árinu eldri, öskudagur rann upp með söng og gleði og tóku Daði Steinn
og Logi Snær virkan þátt í því – enda syngja þeir eins og englar – Frikki Dór
hvað?. Körfuboltinn rúllaði með góðum árangri hjá Ísaki Mána, en Logi Snær og
félagar voru ekki með á Íslandsmótinu.


Mars virðist að mestu hafa snúist um snjó og vond veður. Ég
tók eina kommóðu í gegn. Við Logi Snær fórum að sjá Billy Elliot og Daði Steinn
varð árinu eldri – loksins orðinn sex ára. Sólmyrkvi og svo má ekki gleyma
körfuboltanum en Davíð fylgdi Ísaki Mána og félögum á Scania cup.

Apríl hófst á Scanía hjá feðgunum, en ég og yngri drengirnir
áttum góða Páska hér heima með saltkjötsáti, klifurferð og gleði. Ég var lengi
búin að leita að skenk í stofuna, fann loks einn sem smellpassaði og gerði hann
upp. Daði Steinn fór og söng í Hörpunni með örðum 6 ára börnum í Reykjavík. Svo
var það körfuboltinn – undanúrslit – úrslit og íslandsmeistaratitill hjá Ísaki
og félögum í 10.flokk sem var klárlega toppurinn í apríl.


Maí hófst á einni af fáum Esjuferðum á árinu. Svo var það
sveitin sem heillaði, fórum í heimsókn í Kjósina í sveitina hans Markúsar vinar
hans Daða Steins. Við Logi Snær tókum svo góðan slurk í sauðburði á Knörr. Þann
21.maí útskrifaðist Daði Steinn formlega úr leikskóla eftir fjögur frábær ár á
Fálkaborg með frábæra leikskólakennara. Hann hóf einnig skólagöngu sína í
Seljaskóla með því að fara í vorskóla þar. Ísak Máni fékk frábærar
viðurkenningar á uppskeruhátíð ÍR í körfunni.



Júní hófs á litagleði, en ég og Inga Marín unnum gjafabréf í
Color run hlaupið og kláruðum það með gleði. Ísak Máni lauk sinni
grunnskólagöngu þegar hann útskrifaðist úr Breiðholtsskóla og fékk inngöngu í
Kvennaskólann í Reykjavík. Við fjölskyldan skelltum okkur í frí til Costa Brava
á Spáni í tvær góðar vikur. Ísak Máni varð 16 ára. Við skelltum okkur svo til
Akureyrar nánast beint eftir heimkomu. Ísak Máni byrjaði að vinna í Hagkaup.


Í byrjun júlí tók Logi Snær þátt í N1 mótinu á Akureyri og
kom heim með silfur eftir naumt tap á móti Viking frá Færeyjum. Skruppum til
Grundó. Fórum í fjallgöngur (Helgafell Mos, Helgafell Hf, Reykjafell, Mosfell
og Úlfarsfell ein eða með hinum og þessum göngufélögum) og nutum sumarsins.
Daði Steinn mætti á sína fyrstu fótboltaæfingu og ekki aftur snúið. Fórum á
Góða stund í Grundó og tókum langþráða gönguferð á Eldborg á heimleiðinni.
Mánuðurinn endaði svo á fjölskylduhitting í Bröttuhlíð þar sem allir afkomendur
mömmu og pabba hittust.




Fyrstu dagarnir í ágúst snérust um Úlfarsfell og málningu.
Við máluðum húsið að mestu. Það varð loks af því að ég fór með mömmu og pabba á
Móskarðshnúka en það hafði staðið til í maaarga mánuði. Logi Snær tók þátt í
Olísmótinu á Selfossi og kom heim með gull, en Ísak Máni kom heim með gifs
eftir slæmt fótbrot. Ágústmánuður snerist því mikið um Ísak Mána, enda fékk
hann gifs upp að nára og flutti bælið sitt niður í stofu. Hann hóf skólagöngu í
Kvennaskólanum sem businn á hækjunum. Pabbi hans sá að mestu um að sinna honum
með skutl tengt skólanum. Daði Steinn tók þátt í sínu fyrsta fótboltamóti og
kom taplaus heim af því. Logi Snær byrjaði í 6. bekk í Seljaskóla, Daði Steinn
byrjaði í 1.bekk í Seljakóla og ég byrjaði í 2.bekk í Breiðholtsskóla.




September fólst í því að koma öllu og öllum í góða rútínu.
Logi Snær hætti í fótbolta og fór á fullt í körfuna með bæði minnibolta og
7.flokk. Daði Steinn hélt áfram í fótbolta og ég skellti mér á
skriðsundsnámskeið. Ísak Máni æfði sig á hækjum og Davíð var duglegur að rúnta
með hann um bæinn. Við Daði Steinn skelltum okkur í réttir og smalamennskur þar
sem ég fékk að þramma gamlar slóðir í Kjósdalnum.

Október snerist um körfubolta hjá Loga Snæ, hann fór á mót í
Borgarnesi og tók þátt í túrneringum á Íslandsmótinu. Hann tók einnig á móti
síðbúnum silfurverðlaunum fyrir Reykjavíkurmótið í fótbolta. Daði Steinn kom mér
svo skemmtilega á óvart og skellti sér í hrekkjavökupartý hjá Sigrúnu Evu
vinkonu sinni.

Í byrjun nóvember losnaði Ísak Máni við gifsið eftir að hafa
burðast með gifs í 13 vikur þvílík gleði þó aðrar 13 vikur taki við af því í
endurhæfingu. Ísak Máni var glaður með að geta loks tekið strætó og hætt að
vera háður foreldrum sínum. Helgarnar fóru að venju í íþróttamót, Logi Snær tók
þátt í tveimur túrneringum á Íslandsmótinu og Nettómóti ÍR og Daði Steinn tók
þátt í fótboltamótum í Keflavík og Hveragerði. Logi Snær eyðir gríðarlega
miklum tíma í íþróttahúsi Seljaskóla og eru aukaæfingarnar að skila sér í
frábærum framförum hjá honum.



Markmið desembermánaðar var samvera. Við notuðum helgarnar
sem mest við máttum saman, fórum í bæjarferð, kíktum í jólaþorpið í
Hafnarfirði, fórum á jólamarkað við Elliðavatn, skreyttum piparkökur og nutum
útiveru.

Eftir skriðsundsnámskeiðið í september hef ég haft sundið sem mína
líkamsrækt og jólafríið notaði ég til að synda á meðan aðrir fjölskyldumeðlimir
sváfu og telst mér til að ég hafi frá því í september synt vel yfir 50 km og
stefni ég á að tvöfalda þá vegalengd hið minnsta árið 2016. Jólin og áramótin
voru notaleg og hefðbundin og allir glaðir og sáttir með sitt. 

Árið 2016 verður spennandi með nýjum áskorunum og tækifærum.
Gleðilegt 2016