mánudagur, 29. febrúar 2016

Hlaupandi febrúar

Þá er þessi langi febrúar senn á enda, hefðbundinn með körfubolta og afmælisveislu. Logi Snær varð 12 ára 20. febrúar, en afmælisdeginum eyddi hann í KR heimilinu í körfubolta.
Ísak Máni fékk æfingaleyfi í körfunni í byrjun mánaðar og fór svo í aðgerð til að taka teinana úr fætinum 26. febrúar. Núna er allt á uppleið og um leið og hann treystir sér til að taka þátt í æfingum aftur þá má hann það og þegar þetta er ritað þremur dögum eftir aðgerð þá er hann búinn að skella sér á skotæfingu í Seljaskóla.
Daði Steinn sparkar í tuðru í hvaða veðrum sem er og líkar það vel. Hann er nú farinn að fá vini í heimsókn eftir skóla og líkar alltaf betur og betur við allt sem tengist Seljahverfinu.
Ég held áfram að synda og hef lokið við 13,6 km í febrúar og er farin að synda 40 ferðir eða 1km án þess að stoppa.
 

þriðjudagur, 2. febrúar 2016

Lífið er sund

Ég setti mér markmið um að ná að synda 100 km á árinu. Nú er fyrsti mánuðurinn liðinn og synti ég rúma 13 km í janúar. Ég er nokkuð ánægð með það og alltaf varð hin frábæra Breiðholtslaug fyrir valinu. Stundum læt ég hina í sundi pirra mig, einfaldlega af því þeir hefta för mína og stundum fæ ég braut alveg útaf fyrir mig og næ að slaka á og njóta lífsins í botn.

Fyrsti vitnisburðardagurinn hjá Daða Steini var í janúar og stendur hann sig afbragðs vel í alla staði. Hann les 232 atkvæði á mínútu, rúllar upp stærðfræðinni og er með límheila, en hann virðist muna nánast allt sem sagt er við hann. Hann er líka einstaklega passasamur á alla sína hluti og föt - sem betur fer.
Logi Snær fékk líka sinn vitnisburð og stendur sig glimrandi vel líka, les tæp 400 atkvæði á mínútu og stendur sig almennt vel í stærðfræði og íslensku ásamt öðru sem hann gerir.
Ísak Máni heldur sínu striki í Kvennó, vinnur í Hagkaup öðru hverju og er farinn að þjálfa bæði stelpur og stráka í körfuboltanum. Það styttist svo vonandi í að hann geti sjálfur farið að stunda körfuna á fullu, en núna er hann í endurhæfingu hjá sjúkraþjálfara.