laugardagur, 3. desember 2011

Af mér og mínum!

Ýmislegt gengur á hérna í Eyjabakkanum. Logi Snær er búinn að vera slappur síðustu vikur og eftir tvær læknisheimsóknir, einn sýklalyfjaskammt og blóðprufur fékkst niðurstaða - hann er með veirusýkingu sem venjulega kallast einkirningssótt. Frekar leiðinleg veira sem veldur því að hann verður mjög þreyttur og úthaldslítill og til að bæta gráu ofan á svart þá varð hann þakinn í útbrotum á 90% af kroppnum. En allt er þetta nú á uppleið og Logi Snær væntanlega á leið í skólann á mánudag. Daði Steinn er stíflaður af kvefi og maður krossleggur bara fingur um að hann hangi næstu daga, en hann er á leið í nefkirtlatöku á föstudaginn eftir viku. Ég lét loks verða að því að panta tíma hjá háls- nef- og eyrnalækni og hann var fljótur að taka ákvörðun um að láta fjarlægja þetta. Hann verður hins vegar að hafa hálskirtlana í rúmlega ár enn.
Ísak Máni er hins vegar bara í góðum gír í því sem hann er að gera - körfubolti, píanó og félagslífið.
Ég er að reyna að rækta líkama og sál og fór 3x kl. 6 í ræktina í  vikunni. Á þriðjudag og fimmtudag fór ég í  body pump tíma þar sem maður er aðallega að lyfta og styrkja miðjuna. Á miðvikudag fór ég á brettið og tók einhverja rúma 6 km. en ég verð að segja að það er drep leiðinlegt að hlaupa á þessum brettum. Í morgun lét ég mig hafa það að fara út í frostið og taka 9,2 km á 59 mín. ansi ánægð með það miðað við að færið var alls ekki gott alls staðar.
Nóg af okkur í bili.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli